Veður

Allt að 14 stiga hiti á Austur­landi í dag

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það verður líklega blíða á Egilsstöðum í dag.
Það verður líklega blíða á Egilsstöðum í dag. Vísir/Vilhelm

Hiti verður á bilinu fimm til 14 stig í dag og hlýjast verður á Austurlandi. Víðáttumikil hæð austur af landinu beinir til okkar mildri suðlægri átt samkvæmt hugleiðingum Veðurfræðings. Víða verður því kaldi eða strekkingur sunnan- og vestantil á landinu og súld eða dálítil rigning með köflum, en hægari vindur og léttskýjað um landið norðaustanvert.

Svipað veður á morgun, sunnudag, en á mánudag bætir heldur í úrkomuna á vesturhluta landsins.

Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings er útlit fyrir áframhaldandi sunnanáttir og hlýindi fram yfir miðja viku. Eftir það megi sjá að suðvestanáttin með kólnandi veðri nái yfirhöndinni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Suðaustan og sunnan 3-10 m/s og súld eða dálítil rigning með köflum, en bjart að mestu um landið norðaustanvert. Bætir í vind suðvestan- og vestantil seinnipartinn. Hiti 4 til 13, hlýjast á Austurlandi.

Á mánudag og þriðjudag:

Sunnan 5-13 vestantil og súld eða rigning með köflum, en hægari og bjart að mestu á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.

Á miðvikudag:

Sunnan 8-15 og rigning eða súld, en þurrt að mestu um landið norðaustanvert. Hiti 6 til 16 stig, hlýjast norðaustantil.

Á fimmtudag:

Suðvestlæg átt og þurrt að kalla, en fer að rigna vestanlands síðdegis. Heldur kólnandi.

Á föstudag:

Útlit fyrir áframhaldandi suðvestanátt. Skúrir eða él um landið vestanvert, en yfirleitt þurrt austanlands. Hiti 1 til 7 stig að deginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×