Innlent

Sektaður fyrir of stutt bil milli bíla

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Atvikið átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu.
Atvikið átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Ökumaður var í dag stöðvaður fyrir að aka of nærri lögreglubíl, og var hann sektaður fyrir að hafa of stutt bil á milli ökutækja.

Frá þessu er greint í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem verkefni dagsins eru listuð.

Talsverður erill var á lögreglustöð eitt sem sinnir meðal annars Miðbæ, Vesturbæ og Hlíðum.

Þar var tilkynnt um rúðubrot í verslun á Hafnartorgi, líkamsárás þar sem einn réðst á annan með höggi í andliti, og þar var einnig tilkynnt um þjófnað í verslun í Skeifunni.

Þá var ökumaður vörubifreiðar sektaður fyrir að vera með lausan jarðveg eða möl langt upp fyrir skjólborð á hliðum vörubifreiðarinnar. Mölin féll af bifreiðinni á veginn við akstur.

Einnig var tilkynnt um umferðarslys þar sem maður datt af rafmagnshlaupahjóli. Fram kemur í skýrslu lögreglu að maðurinn hafi verið allsgáður og það teljist óvenjulegt fyrir slík slys.

„Sá var verkjaður í ökkla eftir fallið og leitaði sér aðstoðar á slysadeild til aðhlynningar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×