Handbolti

„Ferli sem fer í gegnum yfir­völd en ekki íþrótta­hreyfinguna“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jón Halldórsson er formaður HSÍ.
Jón Halldórsson er formaður HSÍ.

Jón Halldórsson formaður HSÍ segir að sambandið hafi átt mjög góðar umræður við embætti ríkislögreglustjóra í tengslum við leik Íslands og Ísrael í undankeppni HM. Engir áhorfendur verða á leikjunum tveimur sem fram fara í næstu viku.

Handknattleikssamband Íslands sendi í dag frá sér yfirlýsingu varðandi umspilsleiki Íslands og Ísrael sem fram fara í komandi viku. Í yfirlýsingunni kom fram að samkvæmt ráðleggjum ríkislögreglustjóra hefði verið ákveðið að leikirnir yrðu leiknir fyrir luktum dyrum og að þeir yrðu ekki auglýstir.

„Þetta er ferli sem fer í gang þegar lið frá Ísrael kemur til landsins. Það er ferli sem fer í gegnum yfirvöld en ekki íþróttahreyfinguna,“ segir Jón Halldórsson í samtali við Vísi nú undir kvöld.

Hann segir að sambandið hafi átt góðar umræður við ríkislögreglustjóra og þá sem að málinu koma.

„Eftir umræður tekur greiningardeildin við og gerir áætlun. Þetta er niðurstaðan, að þeir ráðleggja okkur að spila fyrir luktum dyrum og án þess að auglýsa. Við höfum engar forsendur til að fara gegn ráðleggingum þeirra.“

Komuð þið hjá HSÍ með einhverjar fyrirspurnir eða tillögur til ríkislögreglustjóri um ráðstafanir þannig að leikurinn gæti farið fram?

„Við erum í stjórn að stýra handknattleiksdeild. Við erum ekki með sérfærðikunnáttu til að vinna áhættumat og höfum enga ástæðu til að draga það í efa. Þetta er gert til að gæta fyllsta öryggis og taka tillit til aðstæðna,“ sagði Jón og bætti við að virkt samtal hefði farið fram innan sambandsins um málið.

Hann segir HSÍ verða af tekjum af miðasölu en segist viss um að leikmenn liðsins mæti af krafti í leikinn.

„Við erum með ótrúlega sterkan hóp, sterka karaktera og treystum þeim fullkomlega til að klára þessi mál. Nýta þetta inn í leikinn með það að markmiði að sigra og komast á HM.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×