Fótbolti

Rice hlustaði ekki á Ødegaard sem sagði honum að gefa fyrir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Declan Rice horfir á eftir boltanum efst í markhornið.
Declan Rice horfir á eftir boltanum efst í markhornið. getty/Marc Atkins

Declan Rice hafði aldrei skorað beint úr aukaspyrnu áður en að leik Arsenal og Real Madrid kom. En í honum skoraði hann tvö glæsimörk með skotum beint úr aukaspyrnum.

Arsenal er komið með annan fótinn í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 3-0 sigur á Real Madrid á Emirates í gær.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 58. mínútu kom Rice Skyttunum yfir með marki beint úr aukaspyrnu. Hann skoraði annað, og jafnvel enn fallegra, mark beint úr aukaspyrnu tólf mínútum síðar. Mikel Merino gulltryggði svo sigur Arsenal þegar hann gerði þriðja mark liðsins á 75. mínútu.

„Þetta er eitt af þessum augnablikum; besta tilfinning í heimi,“ sagði Rice eftir leikinn í gær. Hann hunsaði ráðleggingar fyrirliða Arsenal þegar kom að fyrri spyrnunni.

„Martin [Ødegaard] sagði mér að senda fyrir en ég sagði að það ætti ekki við að vippa honum svona. Við æfum þetta alla daga. [Nicolas] Jover sagði mér að gefa fyrir en það átti ekki við,“ sagði Rice og vísaði til mannsins sem sér um föstu leikatriðin hjá Arsenal.

„[Bukayo] Saka hvatti mig til að láta vaða. Ég horfði á varnarvegginn og markvörðinn og sagði að ég gæti snúið boltann og það gerðist.“

Arsenal hefur ekki komist í undanúrslit Meistaradeildarinnar síðan 2009 en liðið er í afar vænlegri stöðu til að breyta því.

Seinni leikur Real Madrid og Arsenal fer fram á Santiago Bernabéu eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×