Neytendur

Danskir seðlar teknir úr um­ferð og verða ó­gildir

Atli Ísleifsson skrifar
Seðlarnir á myndinni verða ógildir í lok næsta mánaðar og því um að gera að fara í gegnum útlenska seðlasafnið í skápunum heima.
Seðlarnir á myndinni verða ógildir í lok næsta mánaðar og því um að gera að fara í gegnum útlenska seðlasafnið í skápunum heima. Danski seðlabankinn

Danski þúsund króna seðilinn verður gerður ógildur í lok næsta mánaðar ásamt seðlum úr eldri seðlaröðum. Eigendur slíkra seðla eru því hvattir til að bregðast við og koma þeim í verð áður en fresturinn rennur út.

Þetta kemur fram á vef danska seðlabankans. Þar segir að eftir 31. maí 2025 verði allir peningaseðlar úr eldri dönskum seðlaflokkum ógildir. Það sama eigi við um núgildandi danska 1000 króna seðilinn. Frá þeim degi muni aðeins fjórir danskir peningaseðlar vera gildir: 50, 100, 200 og 500 króna seðlar úr seðlaröð með myndum af brúm og fornleifafundum (2009 seðlaröðin).

Fram kemur að það sem hægt er að gera, sitji menn á slíkum seðlum sem verða ógildir í lok maí, sé eftirfarandi:

  1. Þú getur notað þá eins og venjulega í verslunum í Danmörku til og með 31. maí 2025.
  2. Ef þú átt bankareikning í dönskum banka geturðu lagt þá inn á danska bankareikninginn þinn til og með 31. maí 2025. Ef þú vilt leggja inn danska peningaseðla, geturðu séð á heimasíðu danska bankans þíns hvernig tekið er á móti reiðufénu.
  3. Þú getur valið að geyma seðlana sem safngripi.Bankar á Íslandi taka ekki lengur við dönskum seðlum.

Danski seðlabankinn hefur opnað þrjá skilastaði í Árósum, Óðinsvéum og Kaupmannahöfn þar sem hægt er að innleysa seðlana til og með 31. maí 2026, það er að segja, allt að einu ári eftir að seðlarnir verða ógildir sem greiðslumiðill í dönskum verslunum og bönkum.

Innlausn reiðufjár fellur undir gildandi reglur um peningaþvætti og nauðsynlegt er að mæta í eigin persónu, fylla út skriflega yfirlýsingu og framvísa skilríkjum með mynd. Ekki verður hægt að senda reiðufé til danska seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×