Upp­gjörið: Vestri - FH 1-0 | Daði Berg hetja Vestra

Ragnar Heiðar Sigtryggsson skrifar
Daði Berg Jónsson skoraði eina mark leiksins í dag.
Daði Berg Jónsson skoraði eina mark leiksins í dag. vísir/anton

Vestri tók á móti FH á Kerecis-velli á Ísafirði í annarri umferð Bestu deildarinnar í dag. Leikurinn fór fram við krefjandi aðstæður; hitastigið var um -6 gráður og norðanátt gerði leikmönnum erfitt fyrir. Um 200 áhorfendur mættu þó á leikinn og létu kuldann ekki stoppa sig í að styðja við sína menn.

Leikurinn hófst rólega þar sem bæði lið voru að þreifa fyrir sér. FH virtist koma aðeins sterkari inn í leikinn fyrstu mínúturnar og skapaði sér nokkur hálffæri. Heimamenn í Vestra náðu sér þó á strik og fóru að halda boltanum betur.

Á 38. mínútu kom eina mark leiksins eftir góða sókn barst boltinn til Daða Bergs Jónssonar sem lagði hann laglega í netið framhjá markverði FH. Staðan því 1-0 fyrir Vestra og gleðin mikil í stúkunni.

Seinni hálfleikur hófst með auknum krafti frá FH sem sóttu stíft að marki heimamanna. Vestramenn var þó vel skipulagðir varnarlega og Guy Smit var öruggur í sínum aðgerðum.

FH átti fá góð færi í leiknum en undir lok hans þó á 88. mínútu sendi Kjartan Kári Halldórsson hættulega sendingu fyrir markið en Dagur Traustason náði ekki að koma sér í stöðu til að klára. Það reyndist stóra tækifæri FH í leiknum.

Fjórum mínútum var bætt við í lokin en Vestri hélt út og fagnaði sínum fyrsta sigri í Bestu deildinni þetta tímabilið. Lokatölur 1-0 fyrir Vestra og mikilvæg þrjú stig í hús.

Atvik leiksins

Markið sem skilur að liðin hérna í dag hlýtur að vera atvik leiksins. Gríðarlega mikilvægur sigur Vestra og fjögur stig í hús.

Dómarar

Twana og hans teymi voru mjög flottir í dag. Enginn mistök og héldu línu allan leikinn. Tókum varla eftir þeim eins og þetta á að vera.

Stjörnur og skúrkar

Það gera nokkrir í liði Vestra tilkall til þess að vera stjarna leiksins en við gefum Daða Berg þetta. Var flottur í dag og skoraði sitt fyrsta mark fyrir Vestra.

FH liðið í heild sinni skilaði ekki miklu í dag, áttu ekki hættulegt færi og voru bara heilt yfir aldrei líklegir.

Stemning og umgjörð

Tæplega 230 manns mættu í dag á Kerecisvöllinn, sem verður að teljast gott í þessu veðri sem boðið var upp á. Trommukrakkarnir voru á fullu allan tímann og heyrðist vel í stúkunni, sérstaklega þá undir lokin.

Davíð Smári: „Gríðarlega sáttur við erfiðan leik“

Strákarnir hans Davíðs Smára Lamude eru komnir með fjögur stig í Bestu deildinni.vísir/anton

„Ég er bara gríðarlega sáttur, erfiður leikur og við stóðum okkur gríðarlega vel í þessum leik. Við komum frekar slakir inn í leikinn fyrstu 10 mín, smá skjálfti í okkur en unnum okkur svo inn í þetta,“ sagði Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, um leik sinna manna.

Davíð var ánægður með vörnina í sína í dag en FH náði ekki að skapa sér mikið. 

„Þeir náðu að skapa sér ágætis stöður en engin dauðafæri. Við vissum að það yrðu mikið af háum sendingum og við þyrftum að vera til í það og hjálparvörnina. Mjög sáttur við strákana,“ sagði sigurreifur Davíð en Vestri er með fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki tímabilsins. 

„Ég er bara mjög sáttur, við erum vanalega ekkert sérstakir í byrjun móts og vissulega hægt að bæta okkur en vissulega búnir að sýna góðar frammistöður í þessum tveimur leikjum.“

Heimir Guðjónsson: „Við vorum næstbestir í dag“

FH-ingarnir hans Heimis Guðjónssonar eru án stiga í Bestu deildinni.vísir/diego

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var ekki mjög brattur eftir leik og sagði það alltaf ömurlegt að tapa. Þeir hafi byrjað leikinn ágætlega en voru næstbestir þegar á heildina er litið. 

„Þegar þú lendir undir á móti Vestra að þá er það erfitt eins og sást í síðustu umferð,“ sagði Heimir sem hafði ekki svör við varnarleik Vestra í dag. 

„Við náðum ekki að opna þá í dag en áttum möguleika í restina þegar við fórum í löngu boltana.“

„Nei, ég hef áhyggjur af honum,“ sagði Heimir þegar hann var spurður út í sóknarleik sinna manna. Í dag hafi verið mikið af sendingarfeilum og lélegum sendingum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira