Sport

Fékk síðasta bikarinn á ferlinum mörgum mánuðum eftir að hann hætti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anton Sveinn McKee er fyrrum verðlaunahafi á Evrópumeistaramótinu en hefur snúið sér að öðru.
Anton Sveinn McKee er fyrrum verðlaunahafi á Evrópumeistaramótinu en hefur snúið sér að öðru. Vísir/Vilhelm

Íslenski sundmaðurinn Anton Sveinn McKee setti sundhettuna upp á hillu í lok síðasta árs en hann var þó ekki búinn að taka við síðasta bikarnum á ferlinum

Sundsamband Íslands gerði í gær upp síðasta sundár eftir Íslandsmeistaramótið í 50 metra laug sem fram fór um helgina.

Anton Sveinn fékk þá síðasta bikarinn á ferlinum mörgum mánuðum eftir að hann hætti að keppa í sundi. Anton fékk í gær afhentan Pétursbikarinn sem hann hefur unnið oft áður.

Pétursbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í karlaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum Íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum SSÍ, til loka næsta Íslandsmeistaramóts í 50 metra laug.

Pétursbikarinn er gefinn í minningu Péturs Kristjánssonar sundkappa úr Sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins er fjölskylda Péturs.

Anton fékk Pétursbikarinn fyrir 200 metra bringusund á Evrópumeistaramótinu í Belgrad í júní þar sem hann náði í 896 stig.

@antonmckee

„Seinasti bikarinn á ferlinum. Til hamingju Snorri og Snæfríður. Þið takið við keflinu núna,“ skrifaði Anton Sveinn á samfélagsmiðla.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir fékk Kolbrúnarbikarinn sem er veittur árlega í kvennaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum Íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum SSÍ, til loka næsta Íslandsmeistaramóts í 50 metra laug.

Kolbrúnarbikarinn er gefinn í minningu Kolbrúnar Ólafsdóttur sundkonu úr Sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins eru fjölskylda og vinir Kolbrúnar.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir fékk Kolbrúnarbikarinn fyrir 200 metra skriðsund á Evrópumeistaramótinu í Belgrad í júní þar sem hún náði í 878 stig.

Snorri Dagur Einarsson úr Sundfélagi Hafnarfjarðar fékk síðan Ásgeirsbikarinn sem er veittur árlega fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug sem haldið er á vegum SSÍ.

Ásgeirsbikarinn er gefinn í minningu Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrverandi forseta Íslands. Það var forseti Íslands,Frú Halla Tómasdóttir, sem afhenti Forseta bikarinn.

Snorri Dagur fékk hann fyrir að synda 100 metra bringusund á 1:00,67 mín. sem gaf honum 824 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×