Handbolti

Janus Daði öflugur þegar Pick Szeged féll naum­lega úr keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Janus Daði átti virkilega fínan leik.
Janus Daði átti virkilega fínan leik. EPA-EFE/Sandor Ujvari

Pick Szeged lagði stórlið Barcelona með eins marks mun í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu karla í handbolta. Því miður vann Barcelona fyrri leik liðanna með þriggja marka mun og fer því áfram.

Spennan var mikil í Katalóníu í kvöld og snemma ljóst að gestirnir myndu selja sig dýrt. Ef Börsungar héldu að leikurinn yrði þægilegur þar sem þeir unnu fyrri leikinn í Ungverjalandi með þremur mörkum þá kom annað á daginn.

Gestirnir voru einu marki yfir þegar Börsungar skoruðu fimm í röð og voru allt í einu komnir fjórum mörkum yfir, staðan 15-11 þegar fimm mínútur voru til hálfleiks. Gestirnir klóruðu í bakkann og staðan 16-14 í hálfleik.

Gestirnir sýndu hvað í sér bjó í síðari hálfleik og þegar rétt rúmlega þrjár mínútur voru til leiksloka leiddu Ungverjarnir með tveimur mörkum. Á endanum unnu þeir leikinn með einu marki, lokatölur í Katalóníu 29-30. Það dugði því miður ekki til en heimildarmaður Vísis á leiknum segir að dómgæslan hafi verið heimamönnum hliðholl.

Janus Daði skoraði tvö mörk og gaf fimm stoðsendingar. Sebastian Frimmel var hins vegar markahæstur í liði Pick Szeged með 10 mörk ásamt því að gefa eina stoðsendingu.


Tengdar fréttir

Gísli Þor­geir skaut Mag­deburg áfram

Magdeburg er komið áfram í Meistaradeild Evrópu karla í handbolta eftir eins marks sigur ytra gegn Veszprém. Íslendingar voru í aðalhlutverki í báðum liðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×