Erlent

Segjast hafa lent í drónaárás á al­þjóð­legu haf­svæði

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Dráttarbátur frá Möltu kom að slökkvistarfinu. 
Dráttarbátur frá Möltu kom að slökkvistarfinu.  OPM

Aðgerðasinnar um borð í skipi sem er á leið til Gaza strandarinnar með hjálpargögn segja að drónaárás hafi verið gerð á skipið þar sem það var statt á alþjóðlegu hafsvæði undan ströndum Möltu í nótt.

 Um tólf eru sögð í áhöfn skipsins og fjórir farþegar en um er að ræða aðgerðarsinna frá ýmsum löndum. Þau eru á leið til Gasa með vistir og hjálpargögn en Ísraelar hafa haft Gasa svæðið í herkví síðustu vikur.

Drónar sagðir hafa skotið á stefni skipsins

Maltneski miðillinn Times of Malta segir að eldur hafi komið upp í skipinu í nótt og skipstjórinn sent út neyðarkall. Björgunarlið frá Möltu mætti á svæðið, þar á meðal dráttarbátur með öflugar sjódælur sem var beitt við slökkvistarfið. Yfirvöld á Möltu segja að fólkið um borð hafi neitað að yfirgefa skipið þegar það var boðið og þess í stað fóru maltneskir slökkviliðsmenn um borð og tókst að lokum að slökkva eldinn.

Skipið er enn á floti en óljóst er um skemmdir á því. Aðgerðarsinnarnir segja að drónar hafi gert árásina og að skotum þeirra hafi augljóslega verið beint að stefni skipsins með þeim afleiðingum að eldurinn blossaði upp og leki mun hafa komið að því. Maltnesk yfirvöld segjast fylgjast áfram með skipinu en óljóst er um framhaldið.

Greta Thunberg ætlaði með skipinu til Gasa

Norskir miðlar greina síðan frá því nú í morgunsárið að umverfisbaráttukonan Greta Thunberg sé nú á Möltu og að til hafi staðið að hún færi með skipinu til Gasa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×