Titilvonir Real Madrid lifa og El Clásico fram­undan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kylian Mbappé fagnar með Jude Bellingham.
Kylian Mbappé fagnar með Jude Bellingham. getty/Burak Akbulut

Real Madrid vann 3-2 sigur á Celta Vigo þegar liðin áttust við á Santiago Bernabéu í spænsku úrvalsdeildinni í dag. Kylian Mbappé skoraði tvívegis fyrir Madrídinga.

Með sigrinum minnkaði Real Madrid forskot Barcelona á toppi deildarinnar niður í fjögur stig. Liðin mætast einmitt í El Clásico um næstu helgi, í leik sem Real Madrid verður helst að vinna.

Arda Güler kom Real Madrid yfir með glæsilegu skoti á 33. mínútu og sex mínútum síðar jók Mbappé muninn í 2-0.

Frakkinn skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Real Madrid í upphafi seinni hálfleiks. Mbappé hefur nú skorað 36 mörk fyrir Real Madrid í öllum keppnum á tímabilinu.

Celta Vigo gafst ekki upp og Javi Rodríguez minnkaði muninn á 69. mínútu. Sjö mínútum hleypti Williot Swedberg svo mikilli spennu í leikinn þegar hann skoraði annað mark gestanna.

Heimamenn héldu þó út og lönduðu mikilvægum sigri, þeim fjórða í röð í deildinni.

Celta Vigo, sem hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum, er í 7. sæti deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira