Fótbolti

Fleiri sæti í boði fyrir stelpurnar okkar á HM 2031

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku landsliðskonurnar hafa komist á fimm síðustu Evrópumót en eiga enn eftir að komast á HM.
Íslensku landsliðskonurnar hafa komist á fimm síðustu Evrópumót en eiga enn eftir að komast á HM. Vísir/Hulda Margrét

Framkvæmdaráð Alþjóða knattspyrnusambandsins hefur samþykkt það að fjölga keppnisþjóðum á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta.

Þetta þýðir að liðum á HM eftir sex ár fjölgar úr 32 í 48. Þetta verður ekki formlegt fyrr en breytingin verður staðfest með kosningu á FIFA-þinginu í Asunción í Paragvæ á fimmtudaginn kemur. Það er þó ekki búist við mikilli andstöðu. ESPN segir frá.

Það verða 32 þjóðir á næsta heimsmeistaramóti sem fram fer í Brasilíu 2027 en heimsmeistaramótið árið 2031 fer væntanlega fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.

Sameiginlegt framboð frá Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada er það eina sem er á borðinu en verður ekki staðfest af FIFA fyrr en á næsta ári.

Með þessu verður heimsmeistaramót kvenna orðið jafnstórt karlamótinu. 48 þjóðir taka þátt í næsta heimsmeistaramóti karla sem fer fram í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada næsta sumar.

Tólf þjóðir tóku þátt á fyrsta heimsmeistaramóti kvenna 1991, þeim var fjölgað upp í sextán árið 1999, upp í 24 þjóðir árið 2015 og það tóku síðan 32 þjóðir þátt í síðasta heimsmeistaramóti kvenna árið 2023.

Íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei komist á HM en oft verið nálægt því. Liðið hefur verið fastagestur á Evrópumótinu frá og með árinu 2009.

Með þessari breytingu ætti sætum Evrópu að fjölga og þar með væru fleiri sæti í boði fyrir íslensku stelpurnar. Þær ætla sér þó örugglega að tryggja sig inn á næsta heimsmeistaramót eftir tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×