Golf

Stál­heppinn þegar hann sló í hrífu og hélt toppsætinu

Sindri Sverrisson skrifar
Jhonattan Vegas lenti í glompu við átjándu flötina í gær og missti á endanum tvö af fjórum höggum sem hann hafði í forskot á næstu kylfinga.
Jhonattan Vegas lenti í glompu við átjándu flötina í gær og missti á endanum tvö af fjórum höggum sem hann hafði í forskot á næstu kylfinga. Getty/Alex Slitz

Það ríkir mikil spenna á PGA-meistaramótinu eftir tvo daga af fjórum. Venesúelabúinn Jhonattan Vegas er óvænt efstur en hann var stálheppinn á næstsíðustu holunni í gær. Suður-Kóreubúinn Si Woo Kim setti met þegar hann náði holu í höggi og er í toppbaráttunni.

Vegas er efstur á samtals -8 höggum en það er fyrst og fremst út af mögnuðum fyrsta hring sem hann lék á -7 höggum.

Hann hefði mögulega getað misst toppsætið ef hann hefði ekki verið heppinn með það hvernig boltinn skoppaði í hrífu sem lá við sautjándu flötina, og þaðan inn á flötina.

Þrátt fyrir þessa heppni þá lauk hringnum illa hjá Vegas því hann fékk svo tvöfaldan skolla á síðustu holunni og lauk hringnum því samtals á -1 höggi. Hann var þó ánægður með að vera enn í efsta sæti á risamóti:

„Þetta er nú ástæðan fyrir allri vinnunni sem maður leggur í þetta. Maður gerir þetta til að hafa tækifæri á einhverju svona. Því miður hefur mér ekki tekist það í gegnum ferilinn en maður veit aldrei. Maður verður bara að stíga á bensíngjöfina áfram, halda ró sinni og leggja hart að sér. Það er aldrei að vita hvenær hlutirnir byrja að falla með manni,“ sagði Vegas sem unnið hefur fjögur mót á PGA-mótaröðinni en best náð 22. sæti á risamóti.

Si Woo Kim setti met þegar hann fór holu í höggi á sjöttu holu, með því að slá um 230 metra en það er lengsta vegalengd sem skilað hefur holu í höggi á risamóti. Hann fagnaði þessu ákaft og var svo fljótur að benda á það í viðtölum eftir hringinn að hann hefði átt gamla metið, frá því á Opna breska mótinu í fyrra.

Kim er einn þriggja sem deila 2. sæti á -6 höggum en hinir eru Matthieu Pavon og Matt Fitzpatrick.

Efsti maður heimslistans, Scottie Scheffler, er svo á -5 höggum líkt og Max Homa, en stöðuna má sjá hér.

Rory McIlroy og Xander Schauffele þurfa hins vegar að hlaða í hálfgerða flugeldasýningu í dag og á morgun því þeir rétt komust í gegnum niðurskurðinn og eru á +1 höggi.

Á meðal þeirra sem komust ekki í gegnum niðurskurðinn voru Jordan Spieth, Justin Thomas, Ludvig Åberg og Brooks Koepka að ógleymdum Shane Lowry sem var vægast sagt reiður í gær þegar boltinn hans sökk í holu á áttundu braut en hann endaði einu höggi frá niðurskurðarlínunni.

PGA-meistaramótið er sýnt á Vodafone Sport og hefst bein útsending í dag, laugardag, klukkan 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×