Erlent

Nicusor Dan nýr for­seti Rúmeníu

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hinn 55 ára Nicusor Dan er nýr forseti Rúmeníu. Hann er borgarstjóri Búkarest, stærðfræðingur og Evrópusinni.
Hinn 55 ára Nicusor Dan er nýr forseti Rúmeníu. Hann er borgarstjóri Búkarest, stærðfræðingur og Evrópusinni. GEtty

Nicusor Dan, borgarstjóri Búkarest, sigraði forsetakosningar Rúmeníu í dag með 55 prósent atkvæða. Dan sem er óháður Evrópusinni hafði þar betur gegn hinum hægrisinnaða George Simion.

Sex mánuðir eru síðan stjórnarskrárdómstóll Rúmeníu ógilti niðurstöður fyrri umferðar forsetakosninganna í desember aðeins nokkrum dögum áður en seinni umferðin átti að fara fram. Vegna ógildingarinnar þurfti að hefja ferlið að nýju og velja nýjan dag fyrir kosningu fyrri umferðar.

Calin Georgescu, þáverandi leiðtogi Sameiningarflokks Rúmena, hafði þá nokkuð óvænt borið sigur úr býtum. Ákvörðun dómstólsins kom í kjölfar þess að trúnaðargögn leyniþjónustunnar voru gerð opinber þar sem var gefið í skyn að Georgescu hefði grætt á aðgerð sem hefði snúið að því að snúa almenningsáliti og hafa áhrif á kosninguna. 

Geor­gescu var meinað að taka þátt aft­ur í kosn­ing­un­um og hinn hægris­innaði Geor­ge Sim­i­on tók við keflinu.

Viðsnúningur frá fyrri umferð

Fyrri umferð endurteknu kosninganna fór síðan fram 4. maí síðastliðinn og bar Simion þar sigur úr býtum með 41 prósent atkvæða. Nicusor Dan hlaut aftur á móti aðeins 21 prósent atkvæða í fyrri umferðinni. 

Töluverður viðsnúningur varð síðan í seinni umferðinni þar sem Dan hlaut 55 prósent atkvæða og Simion tæp 46 prósent atkvæða. 

Kjörsókn í kosningunni var söguleg og kusu um 11,64 milljónir Rúmena í seinni umferðinni. Enn á eftir að telja um 790 þúsund atkvæði utan Rúmeníu en sá fjöldi er ekki nægilega mikill til að breyta niðurstöðunni.


Tengdar fréttir

Rú­menar ganga aftur að kjör­borðinu

Seinni umferð forsetakosninganna í Rúmeníu fer fram í dag en þar etja þeir kappi George Simion og Nicusor Dan, sem voru hlutskarpastir í fyrri umferð kosninganna 4. maí síðastliðinn. Sex mánuðir eru síðan hætt var við forsetakosningar vegna ásakana um að Rússar væru að beita sér í kosningunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×