Fótbolti

Gæti þurft úr­slita­leik á Ítalíu eftir VAR-drama

Sindri Sverrisson skrifar
Marko Arnautovic dapur á svip eftir að mark hans gegn Lazio var dæmt af.
Marko Arnautovic dapur á svip eftir að mark hans gegn Lazio var dæmt af. Getty/Severin Aichbauer

Svo gæti farið að Inter og Napoli þurfi að spila hreinan úrslitaleik um ítalska meistaratitilinn í fótbolta, samkvæmt reglum sem samþykktar voru fyrir þremur árum, eftir dramatíska næstsíðustu umferð í gær.

Hvorki Napoli né Inter tókst að vinna í gær en dramatíkin var mikil í uppbótartímanum. Napoli gerði aðeins markalaust jafntefli við Parma og á sama tíma var Inter 2-1 yfir á móti Lazio, og því á góðri leið með að komast í kjörstöðu fyrir lokaumferðina.

En á 90. mínútu jafnaði spænski reynsluboltinn Pedro úr vítaspyrnu fyrir Lazio. Simone Inzaghi, stjóri Inter, fékk þá að líta rauða spjaldið rétt eins og Antonio Conte hjá Napoli gerði í leiknum við Parma, sem og reyndar Christian Chivu, stjóri Parma.

Marko Arnautovic virtist þó ætla að tryggja Inter sigur þegar hann skallaði í netið í uppbótartíma en eftir skoðun á myndbandi kom í ljós að hann var rangstæður.

Á sama tíma var Napoli að fá vítaspyrnu dæmda í leiknum við Parma en hún var svo tekin af liðinu eftir skoðun í varsjánni, á níundu mínútu uppbótartíma.

Þetta þýðir að Napoli er einu stigi fyrir ofan Inter fyrir lokaumferðina og dugar því sigur á heimavelli gegn Cagliari, liðinu í 14. sæti, til að verða meistari.

Ef Napoli tapar hins vegar leiknum og Inter gerir jafntefli við Como á útivelli þá enda liðin jöfn að stigum. Samkvæmt reglunum á Ítalíu verður þá ekki horft til markatölu liðanna heldur verður sérstakur aukaúrslitaleikur á milli þeirra um meistaratitilinn.

Samkvæmt ítölskum miðlum hefur þetta áhrif á það að ekki sé búið að ákveða hvenær leikirnir í lokaumferð deildarinnar fara fram.

Í ljósi þess að Inter spilar úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 31. maí, við PSG, þarf að vera svigrúm fyrir hreinan úrslitaleik í ítölsku deildinni ef til hans kæmi.

Lokaumferðin átti að fara öll fram næsta sunnudag en það verður tekin ákvörðun í dag um dagsetningu. Samkvæmt La Gazzetta dello Sport hafa Napoli og Inter ólíkar skoðanir á þessu og vilja Inter-menn að lokaumferðin verði á fimmtudagskvöld, svo að þeir fái sem lengstan tíma til að undirbúa úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Napoli-menn eru hins vegar sagðir vilja lokaumferð á föstudagskvöld, til að hægt sé að fagna titlinum sem lengst, og það ku sömuleiðis vera eitthvað sem hugnast sjónvarpsrétthafanum DAZN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×