Fótbolti

Amorim vildi ekki ræða fram­tíðina

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ruben Amorim tók við liðinu fyrr á tímabilinu en hefur ekki fagnað góðu gengi.
Ruben Amorim tók við liðinu fyrr á tímabilinu en hefur ekki fagnað góðu gengi. Michael Steele/Getty Images

Ruben Amorim, þjálfari Manchester United, vildi ekki svara spurningum um framtíð sína hjá félaginu, eftir 1-0 tap í úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Tottenham.

„Framtíðina ætla ég ekki að ræða. Í kvöld verðum við að sætta okkur við vont tap. Mér fannst við augljóslega vera betra liðið en einhvern veginn tókst okkur ekki að skora.

Strákarnir lögðu allt sem þeir áttu í þetta. Í náinni framtíð munum við meta stöðuna“ sagði Amorim á blaðamannafundi eftir leik. Hann vildi meina að liðið hefði gert nóg til að vinna leikinn.

„Ef þú skoðar færin sem við fengum, þau komu úr öllum áttum, þannig að þetta var ekki bara einn leikmaður. Markmaðurinn þeirra stóð sig frábærlega. Ég hef mikla trú á mínum leikmönnum. Við gátum ekki styrkt liðið í janúar“ sagði Amorim og var þá spurður út í planið á félagaskiptamarkaðnum í sumar. Það hefur áhrif að hafa misst af Meistaradeildarsæti með því að vinna ekki Evrópudeildina.

„Við erum með tvenns konar plan fyrir sumarmarkaðinn. Það verður að skilja að það er erfitt að ná ekki í Meistaradeildina. Þannig að við munum þurfa að fylgja hinu planinu. En við þurfum að leggja inn vinnu í vikunni og standa okkur vel í síðasta deildarleiknum. Fókusinn fer á það núna“ sagði Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×