Fótbolti

„Verð fyrir von­brigðum ef ég fæ ekki að halda á­fram“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ange Postecoglou stóð við stóru orðin sem hann lét falla í upphafi tímabils.
Ange Postecoglou stóð við stóru orðin sem hann lét falla í upphafi tímabils. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Ange Postecoglou, þjálfari Tottenham, segir það verða vonbrigði ef hann fær ekki að halda áfram þjálfun liðsins og byggja á árangrinum sem náðist í gærkvöldi. Evrópudeildartitillinn gæti nýst sem góður stökkpallur, þrátt fyrir tuttugu töp á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni. 

„Hvað sem gerist, gerist. Við erum enn að reyna að byggja upp liðið. Ég hugsa hlutina til lengri tíma og vil byggja upp lið sem getur náð árangri á næstu fjórum, fimm, sex árum. Ég er þjálfari liðsins, en ákvörðunin er ekki í mínum höndum“ sagði Ange í viðtali við TNT eftir leik.

Ange sagðist vilja vera áfram hjá félaginu, honum fyndist verkinu ekki lokið, þrátt fyrir að hafa tryggt Tottenham fyrsta stóra titilinn síðan 2008.

„Þegar ég tók við starfinu hafði ég aðeins eitt í huga, að vinna eitthvað. Við erum búnir að því og núna getum við byggt á því.“

Tottenham átti vonbrigðatímabil í ensku úrvalsdeildinni og situr í sautjánda sætinu fyrir lokaumferðina. Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Ange hjá félaginu, en hann segir engan fund um sína framtíð á dagskrá Daniels Levy, stjórnarformanns félagsins.

„Ég verð fyrir vonbrigðum ef ég fæ ekki að halda áfram, en það er ekki gagnrýni. Ég skil að það sé erfitt fyrir félagið að byggja á hugmyndafræði eins manns… Ég man þegar ég skrifaði undir þá sagði Daniel: Við reyndum að sækja sigurvegara [eins og Antonio Conte og Jose Mourinho], það gekk ekki en nú erum við með Ange, og félagi (e. mate), ég er sigurvegari.“

Ange hefur uppfyllt loforð sem hann gaf í upphafi tímabils, þegar hann sagðist alltaf vinna eitthvað á öðru tímabilinu sem stjóri. Fleira kom fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum að ofan, meðal annars talaði hann vel um leikmannahóp Tottenham og sagði ungu strákana sem „klifu fjallið“ í gærkvöldi vera tilbúna til að afreka enn stærri hluti. Þá segir hann fólk einbeita sér of mikið að skammtímaárangri.

„Fólk sér tuttugu töp hjá okkur í deildinni, en missir af stærra samhenginu, því sem við erum að reyna að byggja. Kvöldið í kvöld gæti verið frábær stökkpallur fyrir þetta lið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×