Enski boltinn

Wirtz vill bara Liver­pool og metu­pp­hæð komin á borðið

Sindri Sverrisson skrifar
Florian Wirtz er spenntur fyrir að fara til Liverpool.
Florian Wirtz er spenntur fyrir að fara til Liverpool. Getty/Pau Barrena

Ensku meistararnir í Liverpool eru staðráðnir í að landa Þjóðverjanum Florian Wirtz og gera hann um leið að dýrasta leikmanni í sögu félagsins.

Bayern München og Manchester City höfðu áður ætlað sér að landa Wirtz en nú bendir flest til þess að hann gangi til liðs við Liverpool. Það ku að minnsta kosti vera ósk þessa 22 ára þýska landsliðsmanns.

Samkvæmt hinum áreiðanlega Fabrizio Romano hefur Liverpool lagt fram fyrsta boð sitt í Wirtz og er um að ræða yfir 100 milljóna evra boð, jafnvirði um 14,5 milljarða króna. Darwin Nunez er dýrasti leikmaður í sögu Liverpool eftir að hann var keyptur frá Benfica fyrir 85 milljónir evra fyrir þremur árum.

Romano segir að viðræður á milli Liverpool og Leverkusen hefjist að nýju í dag, í von um að samningar náist mjög fljótt.

Þá tekur hann fram að Wirtz hafi þegar tilkynnt vinnuveitendum sínum hjá Leverkusen að hann vilji eingöngu fara til Liverpool.

Lothar Matthäus og Dietmar Hamann, fyrrverandi landsliðsmenn Þýskalands, segja að Wirtz muni verða í uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Liverpool gangi það eftir að hann fari þangað.

„Þetta er stór áskorun fyrir hann. Þetta er ekki bara nýtt félag heldur annað hugarfar og nýtt tungumál. En þetta skref sýnir líka að hann er ekki hræddur. Florian Wirtz hefur hundrað prósent trú á sjálfum sér og hefur efni á því. Ég hef mikla trú á að hann nái langt með Liverpool og í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Matthäus við Sky í Þýskalandi.

Hamann, sem er fyrrverandi leikmaður Liverpool, tók undir og sagði Englandsmeistarana einmitt vanta leikmann í stöðu Wirtz fremst á miðjunni, öfugt við kannski Bayern:

„Hjá Bayern er Jamal Musiala í 10-stöðunni. Kannski vildi hann ekki deila því hlutverki,“ sagði Hamann og Matthäus bætti við: „Liverpool er ekki enn með leikmann í hans stöðu sem getur breytt leikjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×