Innlent

Nauð­lending á þjóð­veginum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Engan sakaði, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu.
Engan sakaði, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Ástþór Ernir

Flugmaður eins hreyfils flugvélar framkvæmdi nauðlendingu á þjóðveginum vegna bilunar sem kom upp í vélinni. Hann var ómeiddur þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn.

Fréttastofu barst laust fyrir miðnætti ábending um að flugvél hefði verið lent á þjóðveginum á tólfta tímanum, skammt frá Hólmsá við Reykjavík, sem rennur í Elliðavatn. 

„Það kemur þarna flugvél rétt hjá okkur og tekur beygju. Hreyfillinn er augljóslega ekki í gangi. Svo lendir hún bara á þjóðveginum, skoppar þar,“ segir Ástþór Ernir Hrafnsson, sem varð vitni að neyðarlendingunni og gerði fréttastofu viðvart.

Hann náði einnig myndbandi af lendingunni, sem má sjá í spilaranum hér að ofan.

Þurftu bara að hreinsa smá olíu

Varðstjóri hjá slökkviliðinu staðfestir frásögnina í samtali við fréttastofu.

„Það var þarna eins hreyfils vél sem lenti á þjóðveginum vegna bilunar eða einhvers slíks,“ segir Steinþór Darri Þorsteinsson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Flugmaðurinn hafi verið einn um borð og hann hafi ekki slasast. Sjúkrabíll og dælubíll hafi verið sendir á vettvang. 

„Hann var bara lentur og beið í rólegheitum þegar okkar menn mættu á svæðið.“

Aðeins hafi þurft að hreinsa smávegis olíu af veginum. Lögregla hafi nú tekið við vettvanginum, sem verði síðan rannsakaður í félagi við Rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Veistu meira um málið? Áttu myndir frá vettvangi? Sendu ábendingu á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×