Fótbolti

Missti markmannsstöðuna og hætti með lands­liðinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mary Earps verður ekki með Englandi á EM í sumar.
Mary Earps verður ekki með Englandi á EM í sumar. Fran Santiago - The FA/The FA via Getty Images

Mary Earps, markvörður PSG sem var áður hjá Manchester United, missti stöðuna sem aðalmarkvörður enska landsliðsins og hefur nú tilkynnt að hún sé hætt landsliðsfótbolta. Hún mun því ekki taka þátt í titilvörn Englands á Evrópumótinu í sumar.

Mary hefur verið aðalmarkmaður Englands undanfarin átta ár og alls spilað 53 A-landsleiki. Hún var hluti af liði Englands sem vann Evrópumótið 2022 og komst í úrslitaleik heimsmeistaramótsins 2023, þar sem hún var valin besti markmaður mótsins.

Stöðubarátta sem vannst ekki

Frá árinu 2024 hefur hún barist um aðalmarkmannsstöðuna við Hannah Hampton, markmann Chelsea. Í apríl síðastliðnum sagði landsliðsþjálfarinn, Sarina Wiegman, að Hampton væri „örlítið á undan“ í baráttunni og yrði líklega aðalmarkmaður Englands á EM.

Mary var valin í landsliðshóp Englands fyrir leikina gegn Portúgal og Spáni í Þjóðadeildinni, síðustu leiki liðsins fyrir Evrópumótið í Sviss sem hefst í byrjun júlí.

Liðsfélagarnir vonsviknir

Hópurinn kom saman í dag, alveg eins og íslenski landsliðshópurinn kom saman í Þrándheimi, og þar tilkynnti Mary ákvörðunina. Breska ríkisútvarpið greinir frá „vonbrigðum“ meðal leikmanna og þjálfara Englands.

Vildi að hún gæti spilað að eilífu

Mary greindi svo frá ákvörðuninni á Instagram síðu sinni. Þar segir hún „heiður og forréttindi að fá að klæðast ensku landsliðstreyjunni og spila fyrir þjóðina.“ Hún vildi „að hún gæti gert þetta að eilífu en - því miður - þurfa allir góðir hlutir einhvern endi að taka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×