Sport

Rússar á­fram úti­lokaðir frá Ólympíu­leikunum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rússar frá ekki að taka þátt í Ólympíuleikunum á Ítalíu næsta vetur.
Rússar frá ekki að taka þátt í Ólympíuleikunum á Ítalíu næsta vetur. Vísir/Getty

Engin lið á vegum Rússlands eða Belarús verða á meðal þátttakenda á Ólympíuleikunum á Ítalíu næsta vetur. Þetta staðfesti Alþjóðaólympíunefndin í dag.

Umræða um þátttöku Rússa blossaði upp á dögunum eftir að rússneskir fjölmiðlar greindu frá því að forráðamenn íshokkýsambands landsins hefði átt í viðræðum við alþjóða íshokkýsambandið um mögulega þátttöku á leikunum.

Alþjóðaólympíunefndin tók hins vegar af allan vafa í samtali við fréttastofu Reuters og segir að ályktun nefndarinnar frá árinu 2023 standi enn. Þar kemur fram að engin lið frá Rússlandi eða Belarús fái að taka þátt vegna innrásar Rússa í Úkraínu og aðstoðar Belarús þar að lútandi.

„Ályktunin byggir á þeirri staðreynd að hópur einstakra íþróttamanna geti ekki talist sem lið. Alþjóða íshokkýsambandið mun fylgja þeirri reglu.“ 

Nokkrir rússneskir íþróttamenn fengu þátttökurétt á Ólympíuleikunum í París síðasta sumar en kepptu þá sem hlutlausir keppendur. Fjórir rússneskir skautahlauparar fengu nýverið leyfi til að reyna að ná lágmörkum fyrir leikana sem framundan eru á Ítalíu.

Rússland vann gull í íshokký á Ólympíuleikunum í Pyeonchang árið 2018 og silfur fjórum árum síðar í Peking. 

Vetrarólympíuleikarnir fara fram í Milano og Cortina 6. - 22. febrúar á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×