Innlent

„Allsvakalega vímaður og ölvaður“ kallaði lög­reglu­menn „fagga og tíkur“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lögreglan sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan sinnti ýmsum verkefnum í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Maður óð út á götu í Reykjavík, barði þar og sparkaði í bíl og var handtekinn skammt frá vettvangi. Maðurinn reyndist „allsvakalega vímaður og ölvaður“, stóð í hótunum við lögreglumenn og kallaði þá aumingja, fagga og tíkur. Hann var því vistaður í fangaklefa.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verkefni lögreglunnar frá 17 í gærkvöldi til 5 í morgun.

Lögreglu barst einnig tilkynning um menn sem voru með ógnandi tilburði við bar á miðborginni. Annar mannanna yfirgaf vettvang eftir að lögregla vísaði honum á brott en hinn æsti sig yfir afskiptum lögreglu og var handtekinn. Streittist maðurinn mikið á móti og gisti fangaklefa fyrir brot á lögreglusamþykkt.

Þá var erlendur einstaklingur handtekinn fyrir of langa dvöl á landinu. Viðkomandi var ekki með vegabréf á sér, neitaði að gefa upp hvar það væri eða hvar dvalarstaður hans væri. Hann var auk þess með „sölueiningar af meintum fíkniefnum“ í nærbuxum og sokkum ásamt peningum. Viðkomandi var því vistaður í fangaklefa.

Í umdæmi lögreglustöðvar 3 sem nær yfir Kópavog og Breiðholt barst lögreglu tilkynning um bílaþjófnað. Hinn stolni bíll fannst seinna um kvöldið og sat þjófurinn þá í bílnum. Viðkomandi hafði þá sett önnur skráningarmerki á bílinn og játaði þjófnaðinn á bæði bílnum og skráningarnúmerunum. Var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×