Fótbolti

„Það er ekki þörf á mér lengur“

Aron Guðmundsson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, styrktarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, styrktarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta. Vísir

Gunn­hildur Yrsa Jóns­dóttir, styrktarþjálfari ís­lenska kvenna­lands­liðsins í fót­bolta, er til staðar fyrir þá leik­menn sem vilja leita til hennar en segir mikilvægt að vera ekki yfir­þyrmandi. Gunn­hildur nýtur sín sem þjálfari í teymi lands­liðsins og segir það ekki kitla að sprikla með á æfingum.

Ísland tapaði fyrsta leik sínum á EM í Sviss í gærkvöldi gegn Finnlandi og var frammistaða liðsins undir væntingum, náði aldrei flugi.

Gunn­hildur Yrsa lék á sínum tíma 102 A-lands­leiki fyrir Ís­lands hönd og fór á stór­mót með liðinu, það fylgi því alltaf stress og spenna að fara á þannig mót.

Klippa: „Erum alltaf okkar helsti gagnrýnandi“

„Mér fannst leikurinn bara upp og niður og stelpurnar eiga svaka­legt hrós skilið fyrir sína frammistöðu eftir að þær urðu einum manni færri. Þær gáfust aldrei upp. Ég er ótrú­lega stolt af þeim.“

En ertu í svona stöðu að miðla af reynslu þinni sem leik­maður til stelpnanna?

„Já og nei. Maður vill ekki vera yfir­þyrmandi en vill þó alltaf vera til staðar fyrir þær. Maður er til staðar fyrir þær sem þurfa þess, þær vita að þær geta alltaf leitað til mín og vita það manna best. Þetta eru at­vinnu­konur með mikla reynslu sjálfar. Við erum alltaf okkar helsti gagn­rýnandi. Maður er líka hérna til þess að peppa þær áfram, koma þeim í gang. Nú tekur við annar leikur, sex stig í pottinum.“

Gunn­hildur hefur þó ekki lagt fót­bolta­skóna al­farið á hilluna. Hún leikur í kana­dísku úr­vals­deildinni með liði Hali­fax Tide þar sem að hún er fyrir­liði liðsins.

Kitlar það ekkert að stíga inn á völlinn hér og taka þátt í æfingum?

„Mínir lands­liðs­skór eru komnir upp á hilluna og ég nýt mín betur núna sem þjálfari. Það er geggjað að vera enn þá hluti af þessum hóp. Þær hafa tekið vel á móti mér sem þjálfari og hafa stutt mig í því. Ég treysti þeim hundrað pró­sent í þessu verk­efni. Það er ekki þörf á mér lengur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×