Erlent

Tugir slasaðir eftir sprengingu á bensín­stöð í Róm

Lovísa Arnardóttir skrifar
Viðbragðsaðilar voru þegar komnir á vettvang þegar sprengingin varð. Eins og má sjá á myndinni virðist þessi sjúkrabíll hafa orðið fyrir sprengingunni.
Viðbragðsaðilar voru þegar komnir á vettvang þegar sprengingin varð. Eins og má sjá á myndinni virðist þessi sjúkrabíll hafa orðið fyrir sprengingunni. Vísir/AP

Tugir eru slasaðir í kjölfar þess að sprenging varð á bensínstöð í Róm í morgun. Slökkviliðs- og lögreglumenn eru meðal slasaðra. Sprengingin átti sér stað í suðausturhluta borgarinnar samkvæmt ítölskum miðlum. Sprengingin varð rétt eftir klukkan átta í morgun að staðartíma.

Á vef Corrierre Della Sera segir að reykur hafi stigið allt að tíu metra upp í loft eftir að sprengingin varð. Fjöldi viðbragðsaðila er á vettvangi og einhverjir þeirra slasaðir að sögn miðilsins, en þó ekki í lífshættu.

Haft er eftir Domenico Pianese, yfirmanni hjá lögreglunni í Róm, að fylgst sé vel með nærliggjandi byggingum. Slökkvilið vinnur enn að því að slökkva eldinn sem kviknaði út frá sprengingunni.

Bensínstöðin er í útjaðri borgarinnar. Sprengingin var nokkuð kröftug. Vísir/AP

Í fréttinni er að finna myndir og myndband af sprengingingunni sem virðist hafa verið afar kröftug og hávær. Samkvæmt sjónarvottum var fyrst eldur og svo tvær sprengingar í röð og sú seinni kröftugri. Viðbragðsaðilar voru þegar á vettvangi vegna brunans og slösuðust einhverjir þeirra því þegar sprengingin sprakk. Aðrir sem slösuðust hafi verið ökumenn sem voru í biðröð. Í fréttinni segir að ástæða sprengingarinnar sé til rannsóknar en svo virðist sem bifreið hafi verið ekið á bensíndæluna.

Í frétt Corrierre Della Sera segir jafnframt að nálægt bensínstöðinni sé að finna leikskóla og íþróttasvæði. Gluggar í nærliggjandi byggingum sprungu og er lögreglan að kanna vettvanginn.

Mikill reykur var á svæðinu í kjölfar sprengingar og bruna. Vísir/AP

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, segist í fréttinni fylgjast með stöðunni. Hún hefur talað við Roberto Gualtieri borgarstjóra Rómar og er í stöðugu samtali við Alfredo Mantovano ráðherra sem fær nýjustu fréttir af vinnu viðbragðsaðila á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×