Sport

Þarf að gefa frá sér sætið sitt á heims­leikunum í Cross­Fit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Gazan lenti í bílslysi aðeins nokkrum dögum eftir að hún tryggði sig inn á heimsleikana.
Alex Gazan lenti í bílslysi aðeins nokkrum dögum eftir að hún tryggði sig inn á heimsleikana. @alexgazan

Bandaríska CrossFit konan Alex Gazan verður ekki með á heimsleikunum í CrossFit í haust þrátt fyrir að hafa unnið sér þátttökurétt á mótinu.

Gazan hefur verið í frábæru formi á tímabilinu og tryggði sér sætið á heimsleikunum með því að vinna NorCal Classic undanúrslitamótið. Miðað við frammistöðu hennar þar var mikils að vænta frá henni á heimsmeistaramótinu.

Þá gripu örlögin í taumana. Aðeins tveimur dögum síðar lenti hún í bílslysi með eiginmanni sínum Jake. Gazan fótbrotnaði í slysinu.

Gazan setti þrátt fyrir þetta áfall stefnuna á það að vera með á heimsleikunum en það var aftur á móti mjög lítill tími til stefnu.

Nú er ljóst að hún getur ekki æft almennilega fyrir leikana og ákvað Gazan því að gefa frá sér sætið sitt á heimsleikunum.

„Þótt að endurhæfingin mín gangi vel þá er það ekki nóg fyrir mig til að koma mér í gegnum heimsleikana á öruggan hátt. Justin [Cotler, þjálfari hennar] og ég tókum því þessa ákvörðun,“ sagði Alex Gazan.

„Heilsu minnar vegna og til þess að skemma ekki möguleika mína í framtíðinni þá sé ég að þetta er sú ákvörðun sen mest vit var í,“ sagði Gazan.

Gazan er með Íslandstengingu því umboðsmaður hennar er Íslendingurinn Snorri Barón Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×