Erlent

Fundin sek um að myrða ættingja með eitruðum sveppum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Patterson var fundin sek um að hafa myrt þrjá og reynt að myrða þann fjórða.
Patterson var fundin sek um að hafa myrt þrjá og reynt að myrða þann fjórða. Getty/Asanka Ratnayake

Kviðdómur í Ástralíu hefur fundið Erin Patterson, 50 ára, seka um að hafa myrt þrjá ættingja og gert tilraun til að myrða þann fjórða, þegar hún gaf þeim beef wellington sem innihélt eitraða sveppi.

Fórnarlömbin voru tengdaforeldrar Patterson, Don og Gail Patterson, Heather Wilkinson, systir Gail, og Ian Wilkinson, eiginmaður Heather, sem lifði tilræðið.

Málið hefur vakið gríðarlega athygli um allan heim en Erin hefur staðfastlega haldið því fram að um óhapp hafi verið að ræða þegar hún bar matinn, sem innihélt baneitraða grænserki (e. death cap), á borð fyrir gesti sína þann 29. júlí 2023.

Gail og Heather létust 4. ágúst og Don 5. ágúst. 

Ian lifði, eins og áður segir, og var útskrifaður í endurhæfingu haustið 2023.

Saksóknarar sögðu Patterson hafa boðið fólkinu í mat undir því yfirskini að hún hefði greinst með krabbamein og að hana vantaði ráðleggingar varðandi það hvernig hún ætti að færa börnum sínum fréttirnar.

Erin var skilin að borði og sæng við eiginmann sinn Simon; honum var einnig boðið en hann afboðaði sig daginn áður.

Erin varð uppvís að því að ljúga að lögreglu en að sögn verjenda hennar var um að ræða „harmleik og hræðilegt slys“. Saksóknarar gátu ekki sýnt fram á neina ákveðna ástæðu þess að Erin ákvað að eitra fyrir fólkinu en sögðu það ekki úrslitaatriði þegar kæmi að því að úrskurða um sekt hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×