Sport

Fattaði ekki að hún væri búin að vinna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hin átján ára gamla Mirra Andreeva er að gera flotta hluti á Wimbledon risamótinu og hún heillar líka marga með einlægri framkomu sinni.
Hin átján ára gamla Mirra Andreeva er að gera flotta hluti á Wimbledon risamótinu og hún heillar líka marga með einlægri framkomu sinni. Getty/Julian Finney

Rússneska tenniskonan Mirra Andreeva er þrátt fyrir ungan aldur löngu komin í hóp bestu tenniskvenna heims.

Þessi átján ára stelpa hefur líka sýnt það og sannað á Wimbledon mótinu síðustu daga. 

Mirra Andreeva tryggði sér sæti í átta manna úrslitunum á Wimbledon með sigri á hinni bandarísku Emmu Navarro. Andreeva vann leikinn 6-2 og 6-3 og þar með 2-0 í settum. Hún hefur þar með komist í átta manna úrslit á fyrstu þremur risamótum ársins.

Andreeva mætir Belindu Bencic frá Sviss í átta manna úrslitunum í dag og sigurvegarinn þar fær svo undanúrslitaleik á móti annað hvort Igu Swiątek eða Liudmilu Samsonova. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast síðan þær Aryna Sabalenka og Amanda Anisimova.

Andreeva var mjög upp með sér eftir leikinn á móti Navarro því að hetjan hennar. Roger Federer, kom til að horfa á hana.

Hún sagðist hafa reynt að passa sig að horfa ekki upp í heiðursstúkuna því hún var viss um að missa einbeitingu sæi hún átrúnaðargoðið sitt.

Kannski var hún aðeins of einbeitt á spaðann og boltann og var því ekki alveg með stöðuna á hreinu.

Hún vissi auðvitað að hún væri í frábærri stöðu á móti Navarro en myndbandið hér fyrir neðan sýnir að Andreeva fattaði ekki í fyrstu að hún væri búin að vinna leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×