Erlent

Kvarta yfir því að reykur frá Kanada sé að skemma sumarið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fulltrúadeildarþingmaðurinn Tom Emmer frá Minnesota er meðal þeirra sem undirrita bréfið.
Fulltrúadeildarþingmaðurinn Tom Emmer frá Minnesota er meðal þeirra sem undirrita bréfið. Getty/Andrew Harnik

Sex þingmenn Repúblikanaflokksins hafa ritað sendiherra Kanada í Washington D.C. erindi þar sem þeir kvarta yfir því að reykur frá gróðureldum í landinu sé að eyðileggja sumarið fyrir íbúum Wisconsin og Minnesota.

Þingmennirnir krefja sendiherrann svara um þær aðgerðir sem stjórnvöld í Kanada hyggjast grípa til, til að draga úr eldunum og reyknum sem berst suður eftir.

„KJósendur okkar hafa sætt takmörkunum þegar kemur að því að fara út fyrir og draga örugglega andann, vegna þeirra hættulegu loftgæða sem reykurinn hefur skapað,“ segir í bréfinu.

„Á okkar heimaslóðum eru sumarmánuðirnir besti tími ársins til að dvelja úti við tómstundir, njóta tíma með fjölskyldunni og skapa nýjar minningar en reykurinn gerir þetta allt erfitt.“

Að minnsta kosti tveir hafa látist í eldunum í Kanada, sem eru árlegur viðburður. Átta léstust í gróðureldum árið 2023, þegar svæði á stærð við England brann.

Yfir 2,600 eldar hafa kviknað á þessu ári og í vor þurftu 30 þúsund manns að yfirgefa heimili sín í Saskatchewan og Manitoba, þar sem neyðarástandi var lýst yfir.

Talsmaður sendiráðs Kanada sagði stjórnvöld sannarlega taka eldana alvarlega og að erindinu yrði svarað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×