Erlent

Fannst lifandi inni í kistu tveimur dögum eftir að leit hófst

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Kona og karl á sextugsaldri eru grunuð um aðild að málinu.
Kona og karl á sextugsaldri eru grunuð um aðild að málinu. Getty

Nítján ára gömul kona fannst læst inni í kistu í Thuringenríki í Þýskalandi tveimur dögum eftir að lögregla hóf leit að henni. Konan komst lífs af en tveir eru í haldi vegna málsins.

Í umfjöllun Spiegel kemur fram að maður og kona á sextugsaldri hafi verið handtekin og úrskurðuð í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn málsins. Þau eru grunuð um hættulega líkamsárás og gíslatöku. Ekki liggur fyrir hve lengi konan þurfti að hírast inni í kistunni. 

Á sunnudag hóf lögregla leit að konunni þar sem ekki hafði spurst til hennar um hríð. Þar sem hún þyrfti að taka inn lyf reglulega hafi leit að henni hafist fyrr en ella.

Við leit á lóð nærri Vogelsbergfjöllum tveimur dögum síðar hafi lögregla heyrt hróp og köll. Í framhaldinu hafi konan fundist í trékassa inni í hlöðu á lóðinni og verið flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.

Ekki fengust upplýsingar frá saksóknara um hve alvarleg meiðsl konunnar voru. Þá liggur ekki fyrir hvort tengsl hafi verið milli konunnar og hinna grunuðu í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×