Golf

Hneig niður tvisvar á risamóti í golfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Charley Hull glímdi við veikindi en ætlaði ekki að missa af Amundi Evian Championship risamótinu. Fljótlega kom þó í ljós að hún var í engu ástandi til að spila golf.
Charley Hull glímdi við veikindi en ætlaði ekki að missa af Amundi Evian Championship risamótinu. Fljótlega kom þó í ljós að hún var í engu ástandi til að spila golf. Getty/Stuart Franklin

Enski kylfingurinn Charley Hull, sem er í hópi þeirra tuttugu bestu í heimi, varð að hætta keppni á Evian Championship sem er eitt af risamótunum hjá konunum.

Hull var á fyrsta hring á þessu fjórða risamóti ársins.

Hún hneig niður tvisvar sinnum á hringnum áður en hún ákvað að hætta keppni. Hull hafði verið að glíma við veikindi, fékk einhvern vírus en þrjóskaðist við og reyndi að spila.

Atvikið varð á fjórðu holu og Hull var á parinu þegar þarna var komið við sögu.

Eftir fyrra skiptið tók hún sér tíma í að jafna sig og hleypti hópnum á undan sér fram úr. Eftir fimmtán mínútna bið þá reyndi hún aftur en fór aftur í grasið eftir fyrsta högg.

Þegar þetta gerðist aftur þá var kallað á hnjaskvagn og hún tilkynnti að hún væri hætt keppni.

Hull, sem er 29 ára gömul, er nítjánda á heimslistanum. Hún hefur ekki unnið risamót en varð í tólfta sæti á bæði PGA meistaramótinu og á Opna bandaríska meistaramótinu á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×