Fótbolti

Skoraði fjögur í fyrri hálf­leik en öll voru dæmd af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kasper Högh skoraði fimm mörk fyrir Bodö/Glimt í norska boltanum í gær en fékk aðeins eitt þeirra dæmt gilt.
Kasper Högh skoraði fimm mörk fyrir Bodö/Glimt í norska boltanum í gær en fékk aðeins eitt þeirra dæmt gilt. Getty/Sebastian Frej

Danski framherjinn Kasper Högh var sjóðandi heitur í leik með Bodö/Glimt í norsku úrvalsdeildinni en því miður fyrir hann var heppnin ekki með honum þegar kom að rangstöðudraugnum sem var líka í stuði í hálfleiknum.

Högh náði að koma boltanum fjórum sinnum í mark Sandefjord í fyrri hálfleiknum en þau voru öll dæmd af.

Myndbandsdómararnir dæmdu rangstöðu í fyrstu þremur mörkunum og í því fjórða flautaði dómarinn markið sjálfur af.

„Þetta er algerlega út í hött. Þetta hlýtur að vera í fyrsta skiptið í norskum fótbolta sem svona gerist. Þetta er alveg fáránlegt,“ sagði knattspyrnusérræðingurinn Carl-Erik Torp hjá NRK. „Að þetta gerist fjórum sinnum í sama hálfleik er kómískt,“ sagði Torp.

Kasper Högh hætti ekki að reyna og fékk loksins mark dæmt gilt á 59. mínútu. Hann skoraði það þó ekki sjálfur en átti stoðsendinguna á Ole Didrik Blomberg. Á 68. mínútu skoraði Högh hins vegar sjálfur og gulltryggði 2-0 sigur Bodö/Glimt á Sandefjord. Markið kom úr víti.

„Þetta var bara hlægilegt. Ég var mjög pirraður yfir fyrsta markinu en svo varð ég bara að halda áfram. Það er síðan ekki hægt að dæma rangstöðu í víti sem er gott,“ sagði Högh í léttum tón.

Högh skoraði sjö mörk í fyrstu sjö deildarleikjunum en þetta var bara annað mark hans í síðustu fimm leikjum.

Hann hafði ekki skoraði í síðustu tveimur leikjum og var því orðinn afar pirraður þegar hvert markið á fætur öðru var dæmt af í þessum furðulega fyrri hálfleik. 

Högh er nú annar markahæstur í norsku úrvalsdeildinni með níu mörk og þrjár stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×