Erlent

Fimm glæpa­menn fluttir frá Banda­ríkjunum til Esvatíní

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Esvatíní, sem áður hét Svasíland, er smáríki og síðasta konungsveldi Afríku. Höfuðborgin heitir Mbabane.
Esvatíní, sem áður hét Svasíland, er smáríki og síðasta konungsveldi Afríku. Höfuðborgin heitir Mbabane. Getty

Yfirvöld í Bandaríkjunum segjast hafa flutt fimm stórhættulega glæpamenn úr landi til þriðja ríkis, eftir að heimaríki mannanna neituðu að taka við þeim.

Bandaríkin hafa nú þegar flutt fjölda einstaklinga til El Salvador og átta til Suður-Súdan, eftir að dómstólar lögðu blessun sína yfir brottflutning ólöglegra innflytjenda til þriðju ríkja.

Fimmmenningarnir sem fluttir voru á brott að þessu sinni eru frá Kúbu, Jamaíka, Víetnam, Laos og Jemen en þeir voru sendir til konungsríkisins Esvatíní í Afríku.

Aðstoðarheimavarnaráðherrann Tricia McLaughlin greindi frá brottflutningnum á samskiptamiðlinum X, þar sem hún sagði mennina hafa gerst seka um svo hrottalega glæpi að heimaríki þeirra hefðu neitað að taka á móti þeim.

Sagði hún meðal annars um að ræða morð og nauðgun barns.

McLaughlin lýsti mönnunum sem siðlausum skrýmslum, sem hefðu hrellt bandarískt samfélag en væru nú komnir út fyrir landsteinana.

Yfirvöld í Esvatíní, sem á landamæri að Suður-Afríku og Mósambík, hafa ekki tjáð sig um málið. Landið hefur hins vegar verið nefnt meðal þeirra ríkja sem Bandaríkjamenn hafa haft til skoðunar þegar kemur að flutningi óæskilegra einstaklinga til þriðja ríkis.

Stjórnvöld í Rúanda hafa greint frá því að hafa átt í viðræðum við Bandaríkjamenn en Benín, Angóla, Miðbaugs-Gínea og Moldóva hafa einnig verið nefnd til sögunnar sem möguleg móttökuríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×