Innlent

Flutti tæp þrjú kíló af kókaíni til landsins og fær tvö ár

Agnar Már Másson skrifar
Hann kom frá öðru landi með fíkniefni í töskunni.
Hann kom frá öðru landi með fíkniefni í töskunni. Vísir/Vilhelm

Maður var í dag dæmdur í tveggja ára fangelsisvist fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa flutt tæplega þrjú kíló af kókaíni til Íslands í apríl.

Maðurinn játaði brotið fyrir Héraðsdómi Reykjaness en hann kom með 2.897,61 grömm af kókaíni í ferðatösku með flugi til Keflavíkurflugvallar og afhenti þau síðar öðrum manni sem einnig var ákærður fyrir brotið. Kókaínið var af 82-85 prósenta styrkleika og ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Nafn mannsins, þjóðerni eða aldur koma ekki fram í dómnum sem birtur var á vef héraðsdóms.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness.

Maðurinn neitaði þó sök um að hafa gert það „í félagi“ við hinn manninn, sem hann þekkti hvorki haus né sporð á og sagðist ekki hafa itað um tilvist hans fyrr en þeir hittust eftir komu hans til landsins 22. apríl. Ákæruvaldið féll því frá þeirri fullyrðingu og klofnaði málið þannig í tvennt. Málvöxtum er ekki lýst frekar í dómnum.

Hann hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. 

Maðurinn fékk annars vegar mildari refsingu vegna greiðrar játningar og samvinnu við lögreglu, segir í dómnum, en hins vegar var litið alvarlegum augum á magn og styrkleika fíkniefnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×