Fótbolti

Zlatan sendi sænsku táningsstelpunni skila­boð eftir vítaklúðrið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Smilla Holmberg var algjörlega niðurbrotin eftir tapið í vítakeppninni. Hún er aðeins átján ára gömul og var að keppa á sínu fyrsta stórmóti.
Smilla Holmberg var algjörlega niðurbrotin eftir tapið í vítakeppninni. Hún er aðeins átján ára gömul og var að keppa á sínu fyrsta stórmóti. Getty/EyesWideOpen

Zlatan Ibrahimovic fann, eins og fleiri, mikið til með sænsku knattspyrnukonunni Smillu Holmberg eftir tap sænska kvennalandsliðsins í átta liða úrslitum Evrópumótsins í fótbolta í Sviss.

Hin átján ára gamla Holmberg var send til að taka víti í vítakeppninni, þrátt fyrir að reynslumeiri leikmenn höfðu enn ekki tekið víti og stelpugreyið klúðraði síðan vítinu. Þetta vítaklúður hennar tryggði enska liðinu sigurinn og sæti í átta liða úrslitum.

Holmberg hágrét eftir vítaklúðrið en liðsfélagarnir reyndu sitt besta til að hugga hana.

Faðir Holmberg sagði að dóttir sína hafi fengið skilaboð frá Ibrahimovic eftir leikinn.

„Það var sorgmædd dóttir sem ég hélt utan um klukkutíma eftir leikinn,“ sagði Ola Persson, faðir Smillu.

„Hún er sterk og hefur líka fengið mikinn stuðning, frá liðinu, stuðningsmönnum, vinum og ættingjum. Hún fékk meira að segja textaskilaboð frá Zlatan í morgun,“ sagði Persson.

Zlatan er átrúnaðargoð hjá Smillu og skilaboðin skiptu hana miklu máli. Zlatan sagði henni að halda ótrauð áfram, taka næsta víti og næsta á eftir því og halda áfram að trúa á sig sjálfa.

„Það mikilvægasta í þessu er að vítaklúður skilgreinir ekki feril hjá neinum leikmanni. Þvert á móti, þú lærir og þroskast í svona kringumstæðum,“ sagði Persson.

Zlatan er markahæsti leikmaður sænska karlalandsliðsins frá upphafi og frægasti knattspyrnumaður Svía fyrr og síðar. Hann er meðeigandi af Hammarby, liði í Stokkhólmi sem Smilla Holmberg spilar með.

@Sportbladet



Fleiri fréttir

Sjá meira


×