Innlent

Hnífstunga á Austur­velli

Eiður Þór Árnason skrifar
Aðgerðum lögreglu á Austurvelli var lokið á fjórða tímanum í dag. 
Aðgerðum lögreglu á Austurvelli var lokið á fjórða tímanum í dag.  Vísir/Lýður Valberg

Einn var handtekinn eftir hnífstunguárás á Austurvelli í dag. Lögreglu barst tilkynning um málið um klukkan 14 og flúði grunaður árásarmaður af vettvangi. Hann var síðar handtekinn í Kringlunni. 

Þetta segir Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Einn hafi verið stunginn og hann hafi ekki upplýsingar um ástand hins særða. Málið er í rannsókn og vildi Sævar ekki veita frekari upplýsingar um það að svo stöddu. 

Frá aðgerðum lögreglu í dag.

Sérsveit ríkislögreglustjóra tók þátt í aðgerðum lögreglunnar á Austurvelli og í Kringlunni. Að sögn sjónvarvotts virtist fórnarlambið vera karlmaður en ljósmynd sem fréttastofa hefur undir höndum sýnir blóðslettur við bekk nærri styttunni af Jóni Sigurðssyni. Á þriðja tímanum mátti sjá lögreglu- og sjúkrabifreiðar við Austurvöll auk hóps lögreglumanna að störfum. Um tíma var hluti Austurvallar lokaður af með lögregluborðum á meðan vettvangsrannsókn stóð yfir.

Rannveig Þórisdóttir, staðgengill upplýsingafulltrúa ríkislögreglustjóra, staðfestir aðkomu sérsveitarinnar að aðgerðinni. Að sögn sjónvarvotts í Kringlunni tóku fjórir lögreglumenn auk öryggisvarða þátt í handtökunni og var hinn grunaði dreginn út úr verslunarmiðstöðinni um klukkan 15. Þá sáust sérsveitarmenn á svæðinu. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×