Tíska og hönnun

„Fata­skápurinn minn gerir ekki ráð fyrir sól“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Gerður G. Árnadóttir er viðmælandi vikunnar í Tískutali.
Gerður G. Árnadóttir er viðmælandi vikunnar í Tískutali. Aðsend

„Eftir því sem maður eldist þá lærir maður betur hvað klæðir mann og pikkar út það sem hentar manni,“ segir Gerður G. Árnadóttir, miðbæjarmeyja með sveitahjarta. Hún hefur alla tíð haft brennandi áhuga á tísku og er einstakur fagurkeri en Gerður ræddi við blaðamann um persónulegan stíl og fataskápinn.

Gerður er fædd árið 1986 og starfar sem verkefnastjóri hjá Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Hún er búsett í miðbæ Reykjavíkur og hefur einstakt auga fyrir fallegum flíkum og hlutum og tekur sömuleiðis einstaklega skemmtilegar myndir af miðbæjarlífinu.

Gerður á auðveldara með að klæða sig á veturna. Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Ég hef sérstaklega gaman af tveimur týpum þegar kemur að tísku. Í fyrsta lagi er það týpan sem er óhrædd að prófa nýtt, vera öðruvísi og er algjörlega fyrir utan rammann. 

Svo í öðru lagi týpan sem er alltaf í því sama vegna þess að það virkar fyrir hana og rokkar því dags daglega. Ég er þarna einhvers staðar inn á milli.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Um þessar mundir eru það þrjár flíkur, drawsting dress frá Aftur, Tabarly peysa frá BAHNS og taska frá Kalda. 

Kosturinn við þessar flíkur er að það er auðvelt að klæða upp eða nota hversdags, fíla margþætt notagildi þegar kemur að flíkum og fylgihlutum.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Það fer eftir veðri, mér finnst ekkert mál að setja saman lúkk þegar það er kalt, tekur mig kannski fimm til fimmtán mínútur en þegar það er heitt þá getur það alveg tekið mig lengri tíma. Fataskápurinn minn gerir ekki ráð fyrir sól.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Um þessar mundir er stíllinn rólegt mix af 90s með hint af 2000 blingi. Ég er að vinna í að bæta „gorpcore“ meira inn í stílinn minn.

Gerður blandar saman ólíkum tímabilum á skemmtilegan máta í stílnum sínum.Aðsend

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Stíllinn minn hefur mikið breyst í gegnum tíðina, eftir því sem maður eldist þá lærir maður betur hvað klæðir mann og pikkar út það sem hentar manni. 

En við erum alltaf að breytast með tímanum og stíllinn endurspeglar það hverju sinni.

Stíll Gerðar er í stöðugri þróun.Aðsend

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Það er fátt skemmtilegra en að klæða sig upp áður en maður fer út úr húsi. Stíllinn minn er frekar afslappaður en reyni að krydda upp á það með flottum nöglum og fylgihlutum.

Hvað skiptir þig mestu máli í klæðaburði?

Góð gæði, að fötin fari mér vel og að mér líði vel í þeim.

Góð gæði og vellíðan skiptir mestu í klæðaburði hjá Gerði.Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Ég skoða götutísku víðs vegar úr heiminum, svipmyndir frá tískuvikunum og svo auðvitað íslensk hönnun.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Nei, hver og einn verður að finna sinn takt.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Núna um þessar mundir er það silfraða Kalda taskan mín, það er alltaf pláss fyrir bling.

Kalda taskan er í algjöru uppáhaldi hjá Gerði um þessar mundir.Gerður G. Árnadóttir

Hvað finnst þér heitast fyrir sumarið?

Mér finnst capri buxur einstaklega smart eða víðar hnésíðar stuttbuxur paraðar með þægilegum topp og sandölum, svo poppað upp með skemmtilegum fylgihlutum.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Vera óhrædd að prófa nýja hluti, kaupa vandaðar vörur, nota það sem þú kaupir og klæða sig eftir veðri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.