Innlent

Með vesen í mið­borginni og á bráða­mót­töku og síðar hand­tekinn vegna þjófnaðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sami maðurinn kom þrisvar sinnum við sögu lögreglu á vaktinni í nótt.
Sami maðurinn kom þrisvar sinnum við sögu lögreglu á vaktinni í nótt.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tilkynningar um að minnsta kosti tvær líkamsárásir í gærkvöldi og nótt en í öðru tilvikinu voru fimm til sex menn sagðir hafa ráðist á einn.

Meiðsl voru minniháttar en málið er í rannsókn.

Í hinu tilvikinu var um að ræða tvo einstaklinga sem virðast hafa framið líkamsárás eftir þjófnað í verslun. Það mál er sömuleiðis í rannsókn.

Lögregla var tvívegis kölluð til vegna sama ölvaða einstaklingsins. Fyrst þar sem hann var með vandræði í miðborginni og seinna þar sem þurfti að vísa honum út af bráðamóttöku Landspítalans vegna óláta.

Maðurinn kom svo enn og aftur við sögu lögreglu þegar hann og annar voru handteknir í tengslum við innbrot og þjófnað á skemmtistað. Fundust þeir skammt frá með hluta þýfisins.

Það er skemmst frá því að segja að maðurinn og félagi hans gista nú fangageymslur.

Lögreglu barst einnig tilkynning vegna óláta á bar. Rætt var við fólk á staðnum og var einn sagður hafa „fengið á lúðurinn“. Gerandinn var farinn þegar að var komið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×