Erlent

Hitinn víða yfir 50 stig og vatnsforðinn að þorna upp

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hitinn hefur farið yfir 50 stig á nokkrum stöðum í landinu.
Hitinn hefur farið yfir 50 stig á nokkrum stöðum í landinu. epa/Abedin Taherkenareh

Stjórnvöld í Íran hafa ákveðið að morgundagurinn verði almennur frídagur í höfuðborginni Tehran en hiti hefur mælst yfir 50 stigum og vatnsból að þorna upp.

Yfirvöld hafa biðlað til íbúa um að spara vatn en þurrkur hefur staðið yfir í landinu í fimm ár og regn verið með minnsta móti það sem af er þessu ári. Þá náði hitinn 52,8 stigum í borginni Shabankareh um helgina og 51,3 stig í bænum Abadan.

Hiti mælist 53 stig í Kúvæt en mælingin hefur ekki verið staðfest.

Guardian hefur eftir ónafngreindum íbúa í Tehran að sólin sé svo sterk í borginni að það sé ómögulegt að ganga um úti. „Mér líður eins og húðin sé að brenna. Skyrtan mín verður blaut á augnabliki og ég fer í sturtu tvisvar á dag í þessum hita. Sem betur fer er ekki vatnsskortur þar sem ég bý.“

Hitinn náði 41 stigi í Tehran í gær.

Masoud Pezeshkian, forseti Íran, sagði á ríkisstjórnarfundi í gær að vatnsskorturinn væri í raun verri en menn gerðu sér grein fyrir og ef ekki yrði gripið til aðgerða myndi skapast staða í framtíðinni sem ekki yrði hægt að leysa.

Sporna þyrfti við ofnotkun.

Annar viðmælandi Guardian í Mashhad sagði fólk hafa áhyggjur af rafmagnssleysi vegna vatnsskortsins og þá væri hitinn óbærilegur. Vandamálið hefði vaxið með byggingu stíflu í Afganistan, sem menn töldu hindra flæði inn í Mashhad.

Uppistöðulón væru að þorna upp og vatnsból að hverfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×