Innlent

Gripinn glóð­volgur í skjóli nætur við að tappa af bílnum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Unnar hvetur eigendur vörubíla til að láta vita lendi þeir í slíkum þjófnaði.
Unnar hvetur eigendur vörubíla til að láta vita lendi þeir í slíkum þjófnaði.

Óprúttinn þjófur var gripinn glóðvolgur af eiganda vörubíls í nótt í Bústaðahverfi í Reykjavík þar sem hann var í óðaönn við að stela díselolíu af bílnum. Fleiri nýleg dæmi eru um slíkan þjófnað en síðustu helgi var hundruðum lítra af olíu stolið á lóð flutningafyrirtækis. Lögregla segir of snemmt að segja til um hvort málin tengist en þjófnaður sem þessi hafi færst mjög í aukana í sumar.

Eigandi bílsins kom að manninum þar sem hann var að tappa olíu af vörubílnum í nótt. Unnar Már Ástþórsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir lögreglu hafa brugðist hratt við.

„Við fáum laust fyrir klukkan eitt í nótt tilkynningu um að það sé verið að stela olíu af vörubifreið í Bústaðahverfinu nálægt Sprengisandi. Við förum náttúrulega í það um leið og þá náum við á einn aðila þarna sem var handtekinn.“

Um helgina birtu forsvarsmenn flutningafyrirtækisins Fraktlausna myndband frá aðfaranótt laugardags þar sem mátti sjá óprúttna þjófa í sömu erindagjörðum. Þjófunum tókst að tappa hundruðum lítra af díseolíu af flutningabílum fyrirtækisins. Forsvarsmenn fyrirtækisins hyggjast tilkynna málið til lögreglu í dag. Unnar segir of snemmt að segja til um hvort málin tengist.

„Við vinnum þetta mál bara áfram, það er í hefðbundnu ferli, rannsókn þessa máls er á frumstigi. Svo má bæta við þetta að það hafa komið sambærileg mál sem hafa verið í opinberri umræðu í fjölmiðlum og við viljum endilega fá þetta til okkar, því þau hafa ekki öll komið til okkar þau mál, til þess að geta þá rannsakað þau og náð þeim brotlegu. Í einhverjum tilvikum liggja upplýsingar fyrir um hverjir þetta eru eða gætu verið.“

Ljóst sé að slíkur þjófnaður feli í sér tjón sem nemi háum fjárhæðum en forsvarsmenn Fraktlausna telja tjónið nema milljónum.

„Þetta getur hlaupið á tugum ef ekki hundruðum þúsunda fyrir eigendur vörubifreiða sem eru með sín tæki lögð hérna um borgina út af vinnunni sinni af einhverjum ástæðum. Þannig að þetta er fljótt að telja hjá þeim og kostar mikið, þannig við viljum komast inn í þetta sem fyrst til að stoppa þetta af. Þetta hefur alveg gerst áður svona faraldrar en það eru nokkur ár síðan þetta gerðist síðast ef ég man rétt en þá þarf að grípa hratt inn í til að stoppa þetta.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×