Körfubolti

Í þrjá­tíu mánaða fangelsi fyrir að hrella Caitlin Clark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maðurinn lét Caitlin Clark ekki í friði, sendi henni ógeðsleg skilaboð og hótaði henni.
Maðurinn lét Caitlin Clark ekki í friði, sendi henni ógeðsleg skilaboð og hótaði henni. Getty/Danielle Parhizkaran

55 ára karlmaður þarf að dúsa lengi í fangelsi fyrir að láta körfuboltakonuna Caitlin Clark ekki í friði.

Maðurinn heitir Michael Lewis og er frá Texas fylki. Hann var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi.

Lewis var fundinn sekur um hrella Caitlin Clark og áreita hana með margs konar hætti.

Lewis viðurkenndi meðal annars að hafa sent Clark klúrar myndir af sér og að hann hafi hótað henni á samfélagsmiðlum frá desember til janúar síðastliðinn.

Lewis hefur þegar eytt 197 dögum í fangelsi sem eru hluti af refsingunni.

Saksóknari lagði áherslu á mikilvægi þess að gera Lewis ábyrgan fyrir hegðun sinni og ennfremur að sjá til þess að Clark geti verið rórri.

Caitlin Clark er vinsælasta körfuboltakona heims og er einn vinsælasti íþróttamaður Bandaríkjanna í dag.

Vinsældirnar eru slíkar og miðaverð og áhorfstölur í WNBA deildinni standa og falla oft með því hvort hún spili eða ekki.

Dökka hliðin á þessum vinsældum hennar eru eltihrellar eins og Lewis sem verður væntanlega ekki sá eini. Clark er vonandi laus við hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×