Formúla 1

Verstappen slekkur á öllum sögu­sögnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fjórfaldi heimsmeistarinn Max Verstappen er ekkert að fara neitt.
Fjórfaldi heimsmeistarinn Max Verstappen er ekkert að fara neitt. Getty/Jakub Porzycki

Formúlu 1 kappinn Max Verstappen er ekkert að fara neitt. Hann hefur nú staðfest að hann keyri áfram fyrir Red Bull árið 2026.

Hollenski heimsmeistarinn staðfesti þetta á blaðamannafundi fyrir ungverska kappaksturinn um helgina.

„Ég held að það sé kominn tími á það að stoppa þessar sögusagnir. Það hefur alltaf verið á hreinu í mínum augum að ég verði áfram hjá Red Bull,“ sagði Max Verstappen.

Lengi hafa menn í formúlu 1 heiminum velt því fyrir sér hvort Verstappen sé á förum. Hann hefur meðal annars verið orðaður við Mercedes liðið.

Verstappen er enn bara 27 ára gamall en hann hefur verið heimsmeistari í formúlu 1 undanfarin fjögur ár.

Útlitið er þó ekki bjart í ár en hann er bara í þriðja sætinu eftir þrettán keppnir. Slakt gengi í ár hefur auðvitað mikið að segja með allar þessar kviksögur.

Christian Horner, yfirmaður hans hjá Red Bull, var rekinn á dögunum og það gerði ekkert annað en að auka slúðrið um framtíð Hollendingsins.

Verstappen er með samning við Red Bull til ársins 2028 þannig að þetta var aldrei spurning um samninginn heldur miklu frekar að hann og liðið hefði komið sér saman um starfslok eins og var í tilfelli Horner.

Verstappen hefur nú stigið fram og fullvissað alla að hann keyrir áfram fyrir Red Bull.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×