Fótbolti

Fékk annað gult fyrir að keyra inn í Mikael og lét dómarann heyra það

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skjáskot af brotinu sem leiddi til þess að Rami Kaib var sendur í sturtu.
Skjáskot af brotinu sem leiddi til þess að Rami Kaib var sendur í sturtu. HBO Max

Rami Kaib, leikmaður Halmstad, nældi sér í tvö gul spjöld og þar með rautt þegar lið hans gerði 1-1 jafntefli við Djurgården í efstu deild sænska fótboltans. Síðara gula fékk Kaib fyrir að keyra inn í Mikael Neville Anderson. Var hann einkar ósáttur með spjaldið og lét dómara leiksins heyra það eftir leik.

Vinstri bakvörðurinn Kaib fékk sitt annað gula spjald þegar aðeins átta mínútur voru til leiksloka. Myndband af atvikinu má sjá neðar í fréttinni.

„Á vellinum leið mér eins og þetta væri 50/50 tækling. Þegar ég sé atvikið endursýnt sé ég að Mikael er með vald á boltanum en ég tel ekki að ég hafi sparkað í hann. Þetta er aukaspyrna og búið mál. Ég get engan veginn séð að þetta sé seinna gula. Mér finnst það fullharkalegt.“

„Þeir öskra hins vegar allir og að mínu mati var dómarinn búinn að missa tökin á leiknum. Mér finnst eins og við séum að spila gegn þremur auka leikmönnum þegar dómararnir dæma svona illa. Mér finnst að þeir ættu að fara í naflaskoðun eftir þennan leik,“ sagði Kaib eftir leik.

Hinn 27 ára gamli Mikael gekk í raðir Djurgården í sumar. Hann hefur byrjað síðustu þrjá leiki. Djurgården er í 7. sæti með 26 stig að loknum 18 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×