Erlent

Hollendingar kaupa vopn af Banda­ríkjunum fyrir Úkraínu­menn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hollendingar hyggjast meðal annars kaupa Patriot eldflaugar fyrir Úkraínumenn.
Hollendingar hyggjast meðal annars kaupa Patriot eldflaugar fyrir Úkraínumenn. Getty/Omar Marques

Stjórnvöld í Hollandi hafa tilkynnt að þau hyggist kaupa vopn af Bandaríkjunum fyrir Úkraínu fyrir um það bil 500 milljónir evra. 

Varnarmálaráðherrann Ruben Brekelmans greindi frá því á samfélagsmiðlum í morgun að meðal vopnanna yrðu eldflaugar í svokölluð Patriot loftvarnarkerfi.

Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld í Evrópu tilkynna um kaup á vopnum fyrir Úkraínumenn frá Bandaríkjunum, eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í síðasta mánuði að Bandaríkin myndu sjá Úkraínu fyrir vopnum en á kostnað bandamanna í Evrópu.

Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagins, hefur fagnað ákvörðun Hollendinga og Matthew Whitaker, sendifulltrúi Bandaríkjanna við NATÓ, segist gera ráð fyrir því að mörg ríki muni fylgja á hæla þeirra á næstu vikum.

Whitaker sagðist í samtali við Reuters gera ráð fyrir því að sendingar gætu hafist á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×