Innlent

Tveir leigu­bíl­stjórar sviptir öku­réttindum við Kefla­víkur­flug­völl

Bjarki Sigurðsson skrifar
Tveir leigubílstjórar misstu prófið við Keflavíkurflugvöll í gær.
Tveir leigubílstjórar misstu prófið við Keflavíkurflugvöll í gær. Vísir/Anton Brink

Settur yfirlögregluþjónn segir lögreglu ekki vera í neinu sérstöku átaki varðandi leigubílstjóra á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar sé reglulegu eftirliti sinnt, og eiga leigubílstjórar það til að brjóta af sér. Tveir misstu prófið við flugstöðina í gær. 

Fréttastofa fékk í gær ábendingu um að lögreglan hafi verið með póst við Keflavíkurflugvöll þar sem gáð var að réttindum leigubílstjóra sem sóttu eða skiluðu farþegum í flugstöðina. Enginn var gripinn réttindalaus í þetta sinn, en það hefur komið fyrir.

Styðjast við gátlista

Ómar Mehmet Annisius, settur yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir þetta þó ekki hluta af neinu átaki. Embættið sé eingöngu að sinna skyldum sínum.

„Það er ekki þannig að við séum með eitthvað sérstakt átak í gangi. Lögreglan hefur verið að sinna þessu, og við munum halda því áfram,“ segir Ómar. „Við höfum eftirlit með leigubílstjórum á svæðinu þar sem við könnum meðal annars hvort þeir séu með ökuréttindi og starfs- og rekstrarleyfi frá Samgöngustofu. Við styðjumst við gátlista þar sem við erum að athuga hvort bíllinn sé með sýnilega verðskrá, gjaldmæli og svo framvegis.“

Keyrðu of hratt

Í gær var lögreglan einnig með ratsjármælingar við flugvöllinn, þar sem tveir leigubílstjórar voru sviptir ökuréttindum vegna hraðaksturs.

„Það er náttúrulega margt fólk sem er þarna gangandi. Þannig það er mikilvægt að fólk fylgist með ökuhraða. Ef hámarkshraði er fimmtán kílómetrar á klukkustund, þá þarf ekki mikið til svo menn missi ökuréttindin. Fólk þarf að vera mjög vakandi,“ segir Ómar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×