Innlent

Valdar strætóleiðir ganga oftar og lengur

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Strætó mun ganga tíðar en áður frá og með 17. ágúst.
Strætó mun ganga tíðar en áður frá og með 17. ágúst. Vísir/Vilhelm

Strætó ræðst í umfangsmikla þjónustuaukningu sunnudaginn næsta. Hlutfall íbúa sem búa innan við 400 metrum frá stoppistöð með tíu mínútna tíðni á annatíma fer úr um 18 prósent í rúmlega 50 prósent.

Þjónustuaukningin felst í aukinni tíðni vagna í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, lengri þjónustutíma á kvöldin, styttri ferðatíma frá Kópavogi og Breiðholti með nýrri forgangsakrein og lengri þjónustutíma og stóraukinni tíðni á Kjalarnesi.

Fram kemur í tilkynningu frá Strætó að á annatíma aukist tíðni leiða 3, 5, 6 og 12 úr 15 mínútum í 10. Leiðir 19, 21 og 24 fara úr 30 mínútna tíðni á annatíma og í 15 mínútna tíðni.

Utan annatíma mun tíðni leiða 3, 5, 12 og 15 aukast úr 30 mínútum í 15. Þar að auki verður lengri þjónustutími á kvöldin á leiðum 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 11, 12, 15, 18, 19 og 21.

Tekið er fram að vegna aukinnar tíðni muni vagnar ekki bíða eftir hver öðrum á annatíma í Ártúni. Nánari upplýsingar og nýjar tímatöflur leiða má finna á heimasíðu Strætó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×