Erlent

Sendu tvö her­skip að um­deildu rifi eftir ásiglingu Kín­verja

Samúel Karl Ólason skrifar
Tundurspillirinn USS Higgins nærri Scarborough-rifi í Suður-Kínahafi.
Tundurspillirinn USS Higgins nærri Scarborough-rifi í Suður-Kínahafi. AP/Strandgæsla Filippseyja

Tveimur bandarískum herskipum var í morgun siglt að umdeildu rifi í Suður-Kínahafi. Var það eftir að tvö kínversk herskip skullu þar saman, þegar áhafnir þeirra reyndu að reka smærra filippseyskt skip á brott frá rifinu.

Tundurspillinum USS Higgins og herskipinu USS Cincinnati var siglt að Scarborough rifi í dag en þeim var fylgt eftir af kínversku herskipi, en þó í um þrjátíu sjómílna fjarlægð, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Kínverjar hafa gert ólöglegt tilkall til nánast alls Suður-Kínahafs og svo gott sem upp að ströndum annarra ríkja á svæðinu. Þar hafa þeir byggt upp heilu eyjarnar, flugvelli og flotastöðvar og komið eldflaugum þar fyrir. Auk Kína gera Víetnam, Filippseyjar, Brúnei, Malasía, Indónesía og Taívan tilkall til svæðisins.

Scarboroughrif er iðulega miðpunktur deilna milli Kínverja og Filippseyinga, þar sem Kínverjar hafa til að mynda ítrekað reynt að reka fiskiskip frá Filippseyjum á brott, svo eitthvað sé nefnt. Það gera þeir með því að sigla fyrir þau eða utan í þau og beita kraftmiklum vatnsbyssum.

Kínverjar hafa sett einhliða takmarkanir á siglingar um svæðið og krefjast þess einnig að þeir sem sigla eða fljúga um svæðið tilkynni það.

Bandaríkjamenn hafa um árabil siglt herskipum og flogið flugvélum um svæðið, í trássi við ólöglegt tilkall Kínverja og mótmæli þeirra, með því yfirlýsta markmiði að tryggja frjálsar siglingar.

Sjá einnig: Deila enn og aftur um siglingar um Suður-Kínahaf

Þá hafa Bandaríkin og Filippseyjar verið bandalagsríki um árabil og ráðamenn í Bandaríkjunum hafa oft varað við því að þeir myndu koma Filippseyingum til aðstoðar ef ráðist yrði á þá. Hvort sem það væri á landi eða á Suður-Kínahafi.

Filippseyingar flugu í dag eftirlitsflugvél yfir Scarborough-rif, með blaðamenn um borð. Kínverskri herþotu var þá flogið í um 150 metra fjarlægð frá eftirlitsflugvélinni og var ætlunin að þvinga flugvélina á brott.

Sjá einnig: Flaug þotu þremur metrum frá sprengjuflugvél

Ráðamenn á Filippseyjum segja þetta hafa gengið á í um tuttugu mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×