Enski boltinn

Stór­kost­leg töl­fræði Salah í fyrsta leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikið breytt vörn Bournemouth fær það verðuga verkefni að reyna að halda aftur af Mohamed Salah í upphafsleik ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.
Mikið breytt vörn Bournemouth fær það verðuga verkefni að reyna að halda aftur af Mohamed Salah í upphafsleik ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. epa/ADAM VAUGHAN

Mohamed Salah verður ekki sakaður um að vera lengi í gang eftir að hann gekk í raðir Liverpool. Enginn leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hefur skorað fleiri mörk í 1. umferð en Egyptinn.

Salah og félagar í Liverpool hefja titilvörn sína gegn Bournemouth á Anfield í kvöld. Rauði herinn varð Englandsmeistari í 20. sinn á síðasta tímabili. Þar fór Salah á kostum og var bæði marka- og stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni. Hann skoraði 29 mörk og lagði upp átján.

Salah er að hefja sitt níunda tímabil með Liverpool en hann kom til liðsins frá Roma sumarið 2017.

Egyptinn skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool, 3-3 jafntefli við Watford í ágúst 2017, og hefur alls skorað níu mörk í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Salah skoraði meðal annars þrennu í 4-3 sigri á Leeds United í 1. umferðinni 2020. Salah hefur aðeins einu sinni mistekist að skora í 1. umferðinni en það var gegn Chelsea á þarsíðasta tímabili.

Flest mörk í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar

  • Mohamed Salah - 9 mörk
  • Wayne Rooney - 8
  • Alan Shearer - 8
  • Jamie Vardy - 8
  • Frank Lampard - 8
  • Sergio Agüero - 7
  • Teddy Sheringham - 7
  • Didier Drogba - 6
  • Louis Saha - 6

Salah hefur alls skorað 186 mörk í ensku úrvalsdeildinni og er í 5. sæti á listanum yfir markahæstu leikmenn í sögu hennar. Hann vantar aðeins eitt mark til að jafna við Andy Cole í 4. sæti listans.

Leikur Liverpool og Bournemouth hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Sýn Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×