Fótbolti

„Loksins, til­finningin er geggjuð“

Kolbeinn Kristinsson skrifar
Agla María og Samantha Smoith fagna í leikslok.
Agla María og Samantha Smoith fagna í leikslok.

Agla María Albertsdóttir, fyrirliði Breiðabliks, var að vonum kát eftir sigur liðsins gegn FH í úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld. Blikar höfðu tapað síðustu þremur bikarúrslitaleikjum sínum, en í kvöld kom sigurinn loksins.

„Loksins, tilfinningin er geggjuð. Sérstaklega sætt að ná að klára þetta núna eftir þrjá tapaða bikarúrslitaleiki í röð á undan þessum.“ 

Agla hefur marga fjöruna sopið en þetta var hennar sjöundi bikarúrslitaleikur á ferlinum. Aðspurð hvar þessi flokkast í röðinni hjá sér segir fyrirliðinn það erfitt að segja. 

„En þessi bikarmeistaratitill hér var ansi sætur og sérstaklega þar sem það var orðið langt síðan síðast, þannig að þessi er þarna uppi, klárlega.“ 

Lið Breiðabliks er búið að spila marga leiki á skömmum tíma í ágústmánuði og þessi úrslitaleikur fer alla leið í framlengingu. Hvernig skyldi orkustigið hafa verið? 

„Orkustigið var svona frekar lágt undir lokin en það munaði öllu að fá ferskar lappir inn á völlinn, Karitas, Ása og fleiri komu inn sterkar og það skipti klárlega sköpum hér í dag.“

Jafnframt segir fyrirliðinn það enga spurningu um að liðið stefni á að klára Íslandsmeistaratitilinn og vinna tvennuna. 

Aðspurð hvernig bikarmeistaratitlinum skyldi fagnað var svar einfalt: „Ég hef ekki hugmynd á þessum tímapunkti, það verður eitthvað skemmtilegt gert.“

Klippa: Agla María eftir bikarmeistaratitilinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×