Innlent

Hinn grunaði var leið­beinandi barna í tæp­lega tvö ár

Smári Jökull Jónsson og Rafn Ágúst Ragnarsson skrifa
Steinn Jóhannsson er sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Steinn Jóhannsson er sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Sýn

Starfsmaður á leikskólanum Múlaborg sem grunaður er um að hafa brotið kynferðislega gegn barni á leikskólanum var leiðbeinandi og hafði unnið á Múlaborg í tæplega tvö ár.

Í dag hafa staðið yfir upplýsingafundir með foreldrum barna á leikskólanum. Fundina sátu fulltrúar borgarinnar, lögreglu og barnaverndaryfirvalda auk foreldra barna sem eru útskrifaðir af leikskólanum eða hafa flutt. Til stóð að halda fundina á morgun en þeim var flýtt að beiðni foreldra.

Þungt hljóð í foreldrum

Steinn Jóhannsson, sviðsstjóri skóla- og frístundaráðs, segir fundina hafa gengið vel. Fimm fundir fóru fram í skrifstofum Reykjavíkurborgar í Borgartúni og voru þeir vel sóttir. Hann segist skynja mikla reiði og sorg meðal foreldra.

„Staðan er bara þannig að hljóðið er mjög þungt í foreldrum og þeir hafa miklar áhyggjur af þessum málum, starfsfólk leikskólans var þarna og bar sig vel og ætlar að taka á móti börnum á morgun og tryggi að þau njóti þjónustu leikskólans. Við erum ánægð að heyra það og stöndum þétt við bakið á því starfsfólki og munum senda auka mannskap í leikskólann,“ segir hann.

Starfsfólk eigi mikið hrós skilið

Steinn segir að á fundinum hafi farið vel yfir það hvaða bjargir standa foreldrum og starfsfólki leikskólans.

„Við munum fyrst og fremst hlúa að þessum hópum til að tryggja það að börnin geti farið inn á leikskólann og finni til öryggis og foreldrunum líði vel að senda börnin sín í leikskólann,“ segir hann.

Steinn segir starfsfólk Múlaborgar eiga mikið hrós skilið. Starsfólk frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar hefur verið starfsfólki leikskólans innan handar undanfarna daga. Til skoðunar er hvort fleiri fundir verði haldnir í september í samráði við foreldraráð leikskólans Múlaborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×