Golf

Vildi mölva kylfurnar eftir sturlað högg Schefflers

Sindri Sverrisson skrifar
Scottie Scheffler fagnaði sigrinum með son sinn í fanginu.
Scottie Scheffler fagnaði sigrinum með son sinn í fanginu. Getty/Kevin C. Cox

Scottie Scheffler átti stórkostlega vippu á næstsíðustu holunni á BMW meistaramótinu í golfi í gær og tryggði sér í kjölfarið fimmta sigurinn á PGA-mótaröðinni á þessu tímabili. Skotinn Robert MacIntyre var hins vegar vægast sagt fúll eftir að hafa endað í 2. sæti.

MacIntyre virtist í góðri stöðu fyrir lokahringinn í gær en fékk þrjá skolla á fyrstu fimm holunum og aðeins einn fugl á öllum hringnum.

Scheffler náði forystunni á sjöundu holu og endaði mótið samtals á -15 höggum, tveimur á undan MacIntyre, ekki síst vegna vippuhöggsins magnaða á 17. braut þar sem boltinn var um tólf sekúndur að rúlla beint ofan í holuna.

Stjörnur á borð við LeBron James og Patrick Mahomes kepptust við að dásama Scheffler eftir höggið og aðdáendur sögðu engan hafa sýnt svona yfirburði síðan Tiger Woods var upp á sitt besta.

„Þetta leit út vel þegar boltinn lenti, leit vel út þegar hann rúllaði og það var gott að sjá hann fara ofan í,“ sagði Scheffler eftir mótið.

Á meðan var MacIntyre brjálaður yfir því hvernig fór hjá honum á lokahringnum.

„Ég átti alveg hryllilega byrjun,“ sagði MacIntyre sem endaði á að leika hringinn á þremur höggum yfir pari.

„Mér leið svo vel fyrir daginn. Ég bjóst aldrei við því að ég yrði yfir pari. Ég hélt að ég kæmi út á völlinn og myndi standa mig eins og ég hef gert síðustu daga,“ sagði Skotinn sem var einnig spurður hvað hann gæti bætt til að standa sig enn betur:

„Ég hef ekki hugmynd. Núna langar mig bara að fara og mölbrjóta kylfurnar mínar,“ sagði MacIntyre.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×