Golf

Skjálfandi í keppni eftir of stóran skammt af kreatíni

Sindri Sverrisson skrifar
Ben Griffin var afar ólíkur sjálfum sér í upphafi lokahringsins í gær.
Ben Griffin var afar ólíkur sjálfum sér í upphafi lokahringsins í gær. Getty/Kevin C. Cox

Kylfingurinn Ben Griffin var í tómu tjóni í upphafi lokahringsins á BMW meistaramótinu í golfi í gær og fjórpúttaði (!) til að mynda á fyrstu holu. Ástæðan er vægast sagt óvenjuleg.

Griffin er hörkugóður kylfingur og stefnir til að mynda á að komast í Ryder Cup lið Bandaríkjamanna. Þá var hann þegar búinn að tryggja sér sæti í lokakeppni PGA-mótaraðarinnar þegar hann spilaði í gær, og hafði að litlu að keppa þar sem hann var fjórtán höggum frá efsta manni.

En Griffin ætlaði sér þó aldrei að eiga þá hryllilegu byrjun sem hann átti á hringnum þegar hann fjórpúttaði á fyrstu holu, sló svo teighögg út fyrir braut og hafði á endanum spilað fyrstu þrjár holurnar á heilum sex höggum yfir pari. 

Hvað í ósköpunum var í gangi?

„Já, þetta er svolítið áhugaverð saga. Ég tek kreatín sem fæðubótarefni og í þetta sinn fékk ég mér það ekki í raun fyrr en ég var mættur á fyrsta teig. Skammturinn minn var að klárast svo ég var í raun með bolta af kreatíni, því þetta hafði verið í fötunni í mánuð, og ég braut þetta og setti í vatnsflöskuna. Allt í góðu. Ég hef tekið svona áður á golfvellinum.

Ég byrjaði að drekka þetta eftir annað höggið mitt og ég gleypti óvart einn af stóru steinunum úr vatnsflöskunni. Ég hef aldrei tekið of stóran skammt af kreatíni áður en hlýt að hafa gert það því ég drakk eiginlega ekkert vatn eftir þetta. Ég gleypti í raun heilan snjóbolta. Svo ég fór allur að skjálfa rosalega. Mér hefur aldrei liðið svona áður,“ sagði Griffin.

Kylfusveinninn til bjargar

Hann náði sér þó á endanum á strik og lék hringinn samtals á einu höggi undir pari, eftir að hafa fengið sjö fugla á síðustu tólf holunum.

„Ég fjórpúttaði á fyrstu holu og á þeirri næstu var ég bara að fríka út og vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ég sló svo langt út fyrir brautina. Sem betur fer kom kylfusveinninn minn og lét mig drekka heilmikið af vatni, og ég reyndi að róa mig aðeins niður. Ég sló svo inn á braut og leið betur. Fékk samt tvöfaldan skolla og svo skolla á næstu holu,“ sagði Griffin.

Hann íhugaði að draga sig úr keppni en eins og fyrr segir lauk hringnum vel. Þrátt fyrir það ætlar Griffin ekki að blanda sér aftur kreatíndrykk á síðustu stundu.

Scottie Scheffler vann mótið eins og fyrr hefur verið fjallað um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×